136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[19:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni í dag fór ég yfir allnokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að séu skoðuð í sambandi við það mál sem hér er til umfjöllunar. Mér tókst ekki að fara yfir alveg öll atriðin og vil minnast á nokkur til viðbótar. Ég vil t.d. inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því sem kemur fram í 24. tölulið þessarar greinargerðar.

Þar segir:

„Hrun bankakerfisins hefur leitt af sér talsverða þörf fyrir erlent lánsfé. Við gerum ráð fyrir að þessi þörf sé 24 milljarðar Bandaríkjadala á tímabilinu til loka ársins 2010. Þar af eru um 19 milljarðar vanskil vegna skulda yfirteknu bankanna þriggja.“

Segja má að þeir fimm milljarðar sem verið er að tala um, annars vegar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hins vegar frá nokkrum öðrum ríkjum, blikni í samanburði við þessa háu fjárhæð. Nú geri ég mér ekki fyllilega grein fyrir hvort reiknað er með því að hún lendi öll á herðum ríkisins, að þetta séu skuldir með ríkisábyrgð sem lenda þar, eða hvernig þessi fjárhæð er fengin. Það er mjög mikilvægt að við vitum nákvæmlega hvað hér er á ferðinni þannig að gerð sé grein fyrir þessum skuldbindingum, hvernig þær eru til komnar og hvort ætlast sé til að þær verði greiddar upp af ríkissjóði eða skattgreiðendum, landsmönnum, til framtíðar.

Í umræðunni fyrr í dag var sagt — hæstv. utanríkisráðherra sagði það m.a. — að við ætluðum að nota okkur sérfræðiþekkingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Já, okkur veitir áreiðanlega ekki af því að fá sérfræðiþekkingu utan að til að aðstoða okkur við að komast út úr þeirri kreppu sem við erum komin í. Hins vegar hefur verið bent á það, og málefnaleg rök eru fyrir því, að ráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi oft og víða reynst þjóðum mjög dýrkeypt. Við því höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði varað. Verkalýðshreyfingin um allan heim hefur líka gert það þó að þau sjónarmið komi ekki við verkalýðshreyfinguna hér á landi, a.m.k. ekki innan Alþýðusambands Íslands eða Samfylkingarinnar, Jafnaðarmannaflokksins. Þetta eru málefnalegar athugasemdir og áhyggjur sem ríkisstjórnin á að sjálfsögðu að taka tillit til, ég tala ekki um stjórnmálamenn sem kenna sig við jöfnuð.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að engin svör væru frá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um hvað það væri sem við hefðum til málanna að leggja. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór yfir það í ræðu sinni hér fyrr í dag hvað við hefðum lagt til í þessu efni. Vandinn er sá að ríkisstjórnin hlustar ekki. Hún situr ekki hér á bekkjunum nema endrum og eins. Hæstv. fjármálaráðherra hefur þó burðast við að vera hér stöku sinnum í dag og væntanlega í húsinu allan daginn en ekki forsætisráðherra eða neinn af forustumönnum Samfylkingarinnar. Það er ekki nema von að þeir viti ekki hvaða svör eða tillögur við höfum fram að færa. Þjóðin hefur heyrt þær hugmyndir og þær tillögur sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram í þessum málum og það endurspeglast mjög í könnunum um afstöðu til stjórnmálaflokkanna. Það skiptir okkur kannski meira máli en flest annað.

Frú forseti. Mér dettur í hug að efnahagsástandinu, því ástandi sem við erum nú í, megi lýsa með orðum Arnar Arnarsonar þar sem segir:

Þetta er mikið þjóðargrand,

þjóðarskútan orðin strand.

Aldrei hefir okkar land

yfir dunið þvílíkt stand.

Þetta lýsir því ástandi sem við stöndum frammi fyrir. Ekki batnar það þegar kemur að ástæðum þess hvernig komið er:

Íhald stýrði rangt og ragt,

rak af leið og skemmdi fragt.

Í skuldarkví var skútu lagt,

skömm er endi á heimskra makt.

Þó að þetta kvæði sé orðið nokkurra áratuga gamalt kemur það upp í hugann þegar við horfumst í augu við það ástand sem nú er og það hvert Sjálfstæðisflokkurinn, og forusta hans mörg undanfarin ár, hefur komið okkur. Er þar ekki undanskilinn sá sem nú situr sem formaður bankastjórnar Seðlabankans og var formaður Sjálfstæðisflokksins um langt skeið. Ábyrgð hans er mikil, bæði sem forsætisráðherra og sem seðlabankastjóra, og traust hans er farið.

Nú þarf að byggja upp, frú forseti, á nýjum grunni og það verður að gerast á grundvelli annarra sjónarmiða, annarrar pólitískrar stefnu, en ráðið hefur ferð. (Forseti hringir.) Byggja verður upp á grundvelli félagshyggju og jöfnuðar með hagsmuni almennings og atvinnulífs að leiðarljósi.