139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

sala Sjóvár.

[15:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Seðlabankinn fer alfarið með meðferð þeirra krafna sem sameinaðar voru á einum stað fyrir hönd ríkisins undir eignarhaldsfélagi Seðlabankans og annast algerlega úrvinnslu þeirra mála þannig að fjármálaráðuneytið hefur enga beina aðkomu að því. Svarið við fyrstu spurningunni er því: Nei, fjármálaráðuneytið hefur ekki verið þátttakandi í þessari úrvinnslu sem slíkri. Hins vegar upplýsir Seðlabankinn af og til almennt um það hvernig gengur að vinna úr eignunum sem þarna voru sameinaðar á einum stað í þessu eignarhaldsfélagi sem Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið í samkomulagi komu á fót og var gengið frá að yrði vistað seðlabankamegin og að hann annaðist um úrvinnslu krafnanna og eignanna. Ég held að því sé eðlilegast að vísa til Seðlabankans að svara fyrir um það hvers vegna ekki var gengið að þessu tilboði. Ég geri ráð fyrir að þar sé hægt að fá upplýsingar um það en eins og kunnugt er voru það einhverjir þættir þessara viðskipta sem voru í skoðun. Ég er ekki til afspurnar um hvað nákvæmlega tók svo langan tíma.

Varðandi Sjóvá er að sjálfsögðu markmiðið að losa þann eignarhlut sem reyndar er ekki formlega orðinn heldur gerðist þetta þannig að ríkið lánaði kröfur til þess að hægt væri að bjarga Sjóvá frá falli á sínum tíma með því stórfellda tjóni sem af því hefði hlotist. En það getur auðvitað leitt til þess að ríkið gerist að lokum eigandi að félaginu. Það er að sjálfsögðu ekki markmiðið að það sé í opinberri eigu, tryggingafélag í samkeppnisrekstri, þannig að að sjálfsögðu verður stefnt því að losa þann eignarhlut. Það er líka ástæða til að fá eins gott verð og hægt er fyrir hann þannig að það má heldur ekki vera það sjónarmið að það eigi að selja fyrir hvaða verð sem í boði er eða hvaða viðskiptakjör sem í boði eru. Það eru væntanlega þættir af því tagi líka sem Seðlabankinn hefur verið að meta í þessu tilviki.