153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

hæfi ráðherra við sölu á hlut í Íslandsbanka.

[15:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Við erum í þeirri stöðu í dag, ólíkt því sem var í vor þegar við vorum með vísbendingar um alls konar misbresti í þessu ferli — eins og hæstv. ráðherra segir skiptir máli hvernig hlutirnir eru gerðir — að núna erum við með í höndunum skýrslu Ríkisendurskoðunar sem staðfestir mjög margar af þessum grunsemdum um misbresti. Við erum í raun komin lengra í áttina að því að segja það með fullri vissu að hér hafi allt verið í algeru klúðri og komin í áttina að því að það sé svo lagalega séð. Við erum almennt komin með mjög góða niðurstöðu um að að það séu misbrestir á framkvæmdinni og framkvæmd skiptir máli. Framkvæmd laga skiptir máli. Við komumst t.d. að því í kosningunum í Norðvesturkjördæmi í upphafi þessa kjörtímabils: Framkvæmdin skipti máli, þó að Alþingi hafi komist að því að lög hafi ekki verið brotin. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Er í rauninni nóg að kalla eftir skýrslu þegar það á greinilega eftir að klára að rannsaka þetta til að axla pólitíska ábyrgð?