153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

söluferli Íslandsbanka.

[15:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það vakti eðlilega athygli þegar hæstv. viðskiptaráðherra, sem sæti átti í ráðherranefnd um sölu á Íslandsbanka, sagði í vor eftir að salan var gengin í gegn og klúðrið allt orðið opinbert að það hefði ekki verið heppilegt að selja í bankanum með þessu fyrirkomulagi og að þeirri skoðun sinni hafi hæstv. ráðherrann komið skýrt á framfæri í ráðherranefndinni. Svo ég vitni beint í viðtal við ráðherrann, með leyfi forseta:

„Önnur leið var hins vegar valin og því miður fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð.“

Ég held að það sé óhætt að segja að þessi varnaðarorð eldist talsvert betur en ummæli annarra hæstv. ráðherra um efnið á sama tíma sem voru og eru enn fastir í eigin réttlætingarheimi. Það staðfestir skýrsla Ríkisendurskoðunar svo ekki verður um villst og auðvitað hefði verið óskandi á sínum tíma að varnaðarorðum hæstv. ráðherra hefði verið gefinn meiri gaumur fremur en að æða áfram blindgötuna sem valin var af öðrum ráðherrum. Þessi forsaga skiptir auðvitað miklu máli upp á framhaldið því að framhaldið snýst einmitt um traust og aftur traust eins og réttilega kom fram hér áðan.

Ég tók eftir því í fjölmiðlum í morgun að hæstv. viðskiptaráðherra talaði um að næstu skref í sölu á Íslandsbanka þyrftu að vera varfærin og mikilvægt væri að við gæfum okkur tíma. Ég hlýt að vænta þess, í ljósi þess að hæstv. viðskiptaráðherra hafði rétt fyrir sér um þessa sölu en hinir ráðherrarnir ekki, að í þessum orðum felist talsvert mikil stefnumörkun sem mögulega mark verði tekið á. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það að gefa sér tíma og að taka varfærin skref þýði þá í raun og veru að alls sé óvíst að eftirstandandi eignarhlutur í Íslandsbanka verði allur seldur á næsta ári.