154. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2023.

Viðbrögð vegna atburðanna á Reykjanesskaga, munnleg skýrsla mennta- og barnamálaráðherra.

[16:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því að við þurfum auðvitað að standa saman og við erum að sýna það í verki að mörgu leyti að við stöndum öll með Grindvíkingum. Ég vil ekki líkja þessu við Covid-faraldurinn vegna þess að þar voru menn að fara algjörlega inn í eitthvað sem var fullkomlega ófyrirséð, heimsfaraldur sem lagðist yfir allan heiminn, allt landið og það sköpuðust mjög sérstakar aðstæður þar sem auðvitað var ekki hægt að hafa neinar handbækur til hliðsjónar. En mér finnst gegna aðeins öðru máli um náttúruhamfarir á Íslandi. Ég ætla bara að leyfa mér að segja það. Á sama tíma og ég fagna því að við höfum sveitarfélögin með í ráðum þegar svona ber undir þá finnst mér að við getum ekki gefið okkur fyrir fram að það sé ekki hægt að hafa til einhver plön sem varða menntun, sem varða fjármál og annað í þeim dúr. Ég held að á eldfjallaeyju og eyju þar sem náttúruhamfarir eru svona miklar og tíðar þá getum við kannski mögulega unnið betur að einhverjum svona forvirkum plönum sem grípa fólk þannig að fyrirhyggjan verði meiri og óvissan þá minni fyrir fólki sem lendir í því.

En mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hér í lokin, af því að mér finnast þessar hugmyndir sem hafa komið fram um það hvernig við ákveðum skólagöngu barnanna góðra gjalda verðar: Ef ástandið verður mjög langvarandi verður þá breytt um kúrs og farið í einhverjar enn aðrar aðgerðir, ef þetta varir t.d. í einhverja mánuði?