131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.

123. mál
[13:16]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra til hvers maður notar rammaáætlunina. Gerð er rammaáætlun um forgangsröðun á virkjunum og virkjunarkostum en síðan er ekkert gert með það meir. Báðar þessar virkjanir, bæði Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun, koma mjög illa út í viðkomandi rammaáætlun og það eru nægir aðrir virkjunarkostir í landinu sem koma betur út. Mér finnst alveg forkastanlegt að hægt sé að hunsa rammaáætlunina.

Ég vil svo bara vekja athygli á því að þessar virkjanir báðar, og virkjun á þessum svæðum, skaða og hindra uppbyggingu á ferðaþjónustu sem hefur verið vaxandi atvinnugrein á svæðinu. Þetta er eitt af einkennistáknum Skagafjarðar, þessi gljúfur og þessi vatnasvæði, heimsfrægar fljótasiglingar sem þarna eru stundaðar. Þarna í liggja hinir stóru atvinnumöguleikar héraðsins þannig að stórvirkjanir á þessu svæði munu í heild skaða þá ímynd héraðsins sem við höfum verið að vinna að. (Forseti hringir.)

Ég tel þess vegna að þarna eigi að fara mjög varlega og það eigi að hafna hugmyndum um þessar virkjanir.