138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

gengisáhætta innstæðutryggingarsjóðs.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bera upp fyrirspurn sem varðar innstæðutryggingarsjóðinn og þetta uppgjör sem við þurfum að fara í við erlenda kröfuhafa. Það er nefnilega þannig að þegar hér voru sett neyðarlög fyrir um það bil ári var hnykkt sérstaklega á heimild innstæðutryggingarsjóðs til að snúa kröfum á sig yfir í íslenskar krónur. Að þessu var ekki vikið sérstaklega í lagasetningu um sjóðinn en talin ástæða í tengslum við setningu neyðarlaganna að hnykkja sérstaklega á heimild sjóðsins til að snúa kröfum frá erlendum aðilum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur til að forða því að sjóðurinn gæti lent í þeirri óþægilegu stöðu að eiga kröfur í íslenskum krónum en hafa skuldbindingar í erlendri mynt.

Maður hlýtur að gefa sér að þegar við setningu neyðarlaganna var hnykkt sérstaklega á þessu atriði hafi menn haft áhyggjur af þessari gjaldeyrisáhættu og séð hana fyrir. Það gerist síðan nokkrum vikum síðar að við fáum kröfur á innstæðutryggingarsjóðinn sem nema um það bil hálfri þjóðarframleiðslunni og þá hlýtur að vakna upp sú spurning: Hvers vegna var þessi lagaheimild ekki nýtt? Hvers vegna völdu menn þá leið að fjármagna innstæðutryggingarsjóðinn í erlendum myntum og skapa þá áhættu og óvissu sem því fylgir í stað þess að sjóðurinn skuldaði í íslenskum krónum? Þetta er algerlega óháð því hvort við ætlum að veita ríkisábyrgð fyrir skuldbindingum innstæðutryggingarsjóðs eða ekki. Þetta hefur einfaldlega með það að gera að við nýtum þau varnaðarúrræði sem til staðar eru í lögum til að gæta hagsmuna okkar og við sjáum það fyrir okkur núna að ef innstæðutryggingarsjóðurinn væri að greiða skuldbindingar sínar út í íslenskri mynt, hvernig sem hann færi að því og hvernig sem hann væri fjármagnaður til þess, þá mundu gjaldeyrislögin að sjálfsögðu gilda (Forseti hringir.) um þær íslensku krónur og þeir fjármunir mundu ekki fara úr landi. Fjármunirnir sem koma vegna uppgjörs bankanna hins vegar mundu streyma inn í landið og það má velta því fyrir sér hvort þetta væri ekki einmitt leið til að stórstyrkja gengi krónunnar.