144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[15:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu getur hæstv. forsætisráðherra ekki komið hér upp og talað eins og hann sé áhorfandi að þessari alvarlegu deilu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki fundað með formanni samninganefndar ríkisins í þessari deilu. Það eru þá alvarleg afglöp ef svo er og ber vitni miklu alvöruleysi af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra getur svo reynt að flytja þá þulu eins oft og hann vill að það sé á ábyrgð allra annarra á vinnumarkaði að búa til umgjörð um lausn á þessari deilu. Það er það ekki.

Hæstv. forsætisráðherra hafði í hendi sér að tryggja frið á vinnumarkaði út þetta kjörtímabil með kjarasamningum í lok síðasta árs. Hann er síðan búinn að gera allt sem hann mögulega getur til að sprengja upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins og hann verður ósköp einfaldlega að búa sjálfur við þær aðstæður sem hann hefur þannig skapað.

Það er ekki verkefni stjórnarandstöðunnar eða aðila vinnumarkaðarins að skera hæstv. forsætisráðherra niður úr (Forseti hringir.) getuleysi hans til að eiga heilbrigð samskipti á vinnumarkaði.