Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

frestun á skriflegum svörum.

[11:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það væri nú ágætt ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áhyggjur af því hvernig t.d. upplýsingar um fyrirhugað útboð láku út þannig að viðskiptamarkaðir þurrkuðust upp dagana fyrir útboðið á Íslandsbanka. Ég hef meiri áhyggjur af þeim leka en því að skýrslan hafi birst degi fyrr en hún átti að gera, þó að auðvitað hefði það ekki átt að gerast. En þetta er staða sem við höfum staðið í allt of oft. Það hefur legið fyrir í dálítinn tíma að það þurfi að breyta verklagi á því hvernig skýrslur Ríkisendurskoðunar berast þinginu og hvernig birtingu er háttað. Nú er rétt að finna út úr því þannig að við getum öll verið sátt. En varðandi ræður þeirra tveggja varaþingmanna Sjálfstæðisflokksins sem vöktu máls á þessu undir störfum þingsins þá langar mig að spyrja: Hver eiga viðbrögð forseta að vera? Hverju er verið að kalla eftir? Á forseti að fara í einhvern lögguleik? Á forseti að yfirheyra þingmenn, á hann að fara í gegnum pósthólfin hjá þingmönnum? (Forseti hringir.) Á að fara að yfirheyra fjölmiðla? Á að taka fréttastofu RÚV á teppið og spyrja hver heimildarmaðurinn sé? (Forseti hringir.) Hvað er hægt að gera? Hver er krafan? Hvað er verið að biðja um?