Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Frestun á skriflegum svörum.

[11:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Vegna þess að hv. þingmenn Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Hildur Sverrisdóttir nýttu hér tækifærið til að bera af sér sakir þá er kannski rétt að benda á að það væri kannski einfaldast að gera það á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins af því að upphaflegu sakirnar voru bornar fram af hv. þm. Friðjóni R. Friðjónssyni sem talaði um þennan þingmann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem var skjótari en skugginn að skjóta skýrslunni upp í Efstaleiti. Þar með liggja allir þingmenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar undir ásökunum þess þingmanns. (BLG: Heyr, heyr. ) Og að benda á einhverja aðra er bara enn ein afvegaleiðing stjórnarliða.

En við skulum líka rifja upp, herra forseti, hvers vegna trúnaður yfir skýrslum ríkisendurskoðanda er til komin. Fyrir nokkrum árum birti Ríkisendurskoðun bara skýrslur, svo kom embættið og kynnti þær fyrir þingnefndinni. Það var þingið sem bað um þennan trúnað, ekki vegna þess að þarna væru einhver háleynileg gögn heldur einfaldlega til þess að þingmenn hefðu ráðrúm til að kynna sér efnið (Forseti hringir.) áður en við þyrftum að svara fyrir það gagnvart fjölmiðlum og almenningi. (Forseti hringir.) Við getum alveg náð utan um það markmið með einhverjum nýjum leiðum. En að láta eins og skýrslur Ríkisendurskoðunar (Forseti hringir.) séu geislavirk trúnaðarefni sem ekki mega líta dagsins ljós fyrr en á einhverjum ákveðnum, tilteknum tímapunkti — þá er aðeins verið að færa í stílinn.