137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa veifað minnisblaðinu frá því í október. Síðan batnaði það með samningagerðinni. Ég tel að hægt sé að ná betri samningum með tilliti til þess og tilvísun í það að þróun á heimsvísu er okkur hagfelld í dag. Menn hafa skilning á því hvað gerðist í haust. Það var einfaldlega panikástand ríkjandi hér heima og gagnvart okkar viðsemjendum og viðbrögðin voru eftir því, vanhugsuð viðbrögð erlendra ríkisstjórna. Ég segi einfaldlega: Það á að vera hægt að gera það og ég tel vísbendingar í þá veru að ef Evrópusambandið meinar eitthvað með því að vera lýðræðislegt þá skoðar það þá stöðu að það er þjóðþing Íslendinga sem tekur málefnalega afstöðu til þessa máls. Er þingmaðurinn einfaldlega að segja að við höfum ekkert um málið að segja, að ekki sé hægt að gera neitt annað, að við eigum bara að ýta á græna takkann hvað sem tautar og raular, að við höfum ekki okkar rétt (Forseti hringir.) lögum samkvæmt til að skoða gögnin, að við verðum bara að segja já hvað sem tautar og raular? Ég mótmæli því.