138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

gengisáhætta innstæðutryggingarsjóðs.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig með innstæðutryggingarsjóðinn að hann er að fara að taka stór lán í erlendri mynt og hann mun þurfa að standa skil á greiðslu þeirra lána og vaxta vegna þeirra. Hér verður um verulegar fjárhæðir að ræða sem ríkisstjórnin er að leggja til að á endanum verði skuld ríkisins, allt það sem út af stendur þegar gert hefur verið upp úr eignasafni bankans. Ég tel að þetta atriði hafi alls ekki fengið nóga athygli, ég tel að það sé fullkomlega óljóst enn þá hvers vegna lagaheimildin hefur ekki verið nýtt. Gott og vel. Það kann að hafa verið skynsamlegt að ræða um uppgjör á einhverjum öðrum forsendum þegar menn ætluðu að finna einhverja pólitíska lausn þar sem allir legðu sitt af mörkum en þegar lagt er upp með það að við Íslendingar tökum á okkur allar skuldbindingarnar og veitum ríkisábyrgð til viðbótar, þá er mjög æpandi sú spurning hvers vegna við erum ekki að nýta heimildina til að láta uppgjörið fara fram í íslenskum krónum í stað þess að taka á okkur þessar miklu skuldbindingar í erlendum myntum.