144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

brotthvarf Vísis frá Húsavík.

229. mál
[16:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Brotthvarf Vísis frá Húsavík í vor og frá Djúpavogi nú um áramótin þegar skellt verður í lás þar er auðvitað stórt högg og sársaukafull birtingarmynd á því öryggisleysi sem sjávarbyggðirnar búa við. Í báðum tilvikum, á Húsavík og á Djúpavogi, er stærstur hluti bolfiskkvóta viðkomandi byggðarlaga, sem þar hefur þó enn haldist frá fyrri umsvifum, að hverfa á brott og reynslan sýnir að það gerist iðulega í eitt skipti fyrir öll.

Víglínan er að færast innar og það fækkar sífellt stöðunum þar sem kvótinn er að safnast saman í auknum mæli, en að sama skapi fjölgar í hinum hópnum þar sem aðgangur byggðanna að auðlindinni er orðinn takmarkaður eða nánast enginn. Á næsta ári er svo röðin komin að Þingeyri í framhaldi af þessari ákvörðun Vísis að loka á þremur stöðum.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt, við stöndum frammi fyrir því, að það verður að auka svigrúm stjórnvalda til að tryggja á nýjan leik einhverja viðunandi byggðafestu í sjávarbyggðunum sem eiga allt sitt eða mest allt undir umsvifum í sjávarútvegi.