Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Frestun á skriflegum svörum.

[11:19]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar að koma hér upp og ávarpa það sem virðist vera í dag stóra lekamálið. Þetta eru tvö aðskilin mál og við skulum ekki þvæla þeim saman. Við skulum heldur ekkert vera með dylgjur um að það hafi verið þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafi lekið hér trúnaðargögnum eða einhver annar. Við vitum alla vega að það var einhver sem lak trúnaðargögnum og það hlýtur að vera alvarlegt. Þess vegna finnst mér það sæta furðu þegar hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kemur hingað upp og segir: Það er ekki alvarlegt mál. Það hlýtur að vera brýnt, þegar við þingmenn erum búin að skrifa undir eið um að gæta trúnaðar í störfum okkar og leggja við drengskap okkar, að við getum, ef okkur eru falin trúnaðargögn, haldið þeim hjá okkur en förum ekki með þau út í samfélagið þar sem þau eiga ekki heima fyrr en eftir að þau hafa verið tekin fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er alvarlegt mál ef svo er ekki. Það stendur ekki á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að koma hingað og ræða málið sem er bankasalan. Við vorum að því allan þriðjudaginn og við getum alveg tekið annan dag í það ef stjórnarandstaðan vill það.