141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við þekkjum öll forsögu þessa máls. Eins og framsögumaður kom inn á hefur það verið í vinnslu í þinginu og á undanförnum þingum. Það snýr að því að stofna tvær nýjar ríkisstofnanir, Farsýsluna og Vegagerðina. Margar athugasemdir hafa komið fram um málið, bæði hvað varðar hagræðingu og skilvirkni og eins hafa komið fram athugasemdir sem tengjast siglingamálum, fluginu og fleiri atriðum. En nú er svo komið að málið er að komast á lokastig og allt útlit fyrir að það verði að lögum eða komi í það minnsta til atkvæðagreiðslu í þinginu.

Ég er einn þeirra sem hafa verið andsnúnir málinu í því formi sem það er og er það enn þá, bæði hvað varðar þá þætti sem ég nefndi áðan og eins varðandi fjárhagslega ávinninginn. En ég held að það sé ekki ástæða til að taka efnislega umræðu um málið, það hefur verið gert á fyrri þingum. Það er hins vegar gagnrýnisvert að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til þeirra athugasemda sem fram hafa komið bæði á fyrri þingum og á þessu þingi. Því miður var það ekki gert.

Ég lýsi því yfir að þegar málið kemur til atkvæða munu framsóknarmenn að öllum líkindum leggjast gegn því að frumvarpið um Farsýsluna verði að lögum og eins frumvarpið sem snýr að Vegagerðinni.