138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:39]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki að tengsl séu þarna á milli á þann hátt sem hv. þingmaður dregur fram og vitnar í einhver orð þingmanna um að Ísland geti aldrei gerst aðili að ESB ef þetta Icesave-mál fari ekki að fá þann endi að við greiðum allt upp og málið klárist þannig. Ég sé ekki samhengi þar á milli, en auðvitað tengjast þessi mál að því leytinu til, þ.e. ESB og Icesave, að Icesave-skuldbindingarnar eru til vegna tilskipana frá Evrópusambandinu. Þær byggjast vissulega á því, þar eru tengslin, en þau eru ekkert meiri en það að mínu mati. Þó að við höfum núna sótt um aðild að Evrópusambandinu þá á ég ekki von á að Icesave-málið trufli það ferli. Ég held að það ferli sé miklu, miklu lengra og tímafrekara en það að Icesave-málið trufli það. Ég á von á því að Icesave-málið geti eiginlega bara farið á tvennan hátt. Annaðhvort verður það samþykkt með meirihlutavaldi stjórnarflokkanna, eins og málið liggur fyrir í dag þegar umræðan er tæmd og þá er það frá þannig séð, auðvitað þurfum við að borga eftir ákveðinn tíma, sjö ár, þá þurfum við að borga, málið getur farið þannig, eða að stjórnarsinnum snúist hugur og ákveði að samþykkja það ekki. Þá verðum við væntanlega dregin fyrir dóm og þá kemur sannleikurinn í ljós. Þá fáum við loksins úr því skorið lagalega séð hvað þessar tilskipanir eiginlega þýða. Og bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa fært rök fyrir því að miðað við hvernig frumvarpið er núna, þessi samningur, þá sé að mörgu leyti skárra að láta draga sig fyrir dóm en að samþykkja hann og borga þetta þannig af fúsum og frjálsum vilja, það væri nær að draga okkur fyrir dóm og borga samkvæmt honum, en borga ekki af fúsum og frjálsum vilja, og jafnvel gætu þá verið um lægri greiðslur að ræða. (Forseti hringir.)

Ég sé ekki samhengi á milli eins og hv. þingmaður dregur upp, en þetta tengist af því að ESB-tilskipanir eru að baki.