141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er gert ráð fyrir að um varanlega fjárveitingu verði að ræða enda kemur fram í breytingartillögunni sem ég mælti fyrir áðan að gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður verði um 40 millj. kr. en það þurfi að bregðast við á yfirstandandi ári með ýmsum einskiptiskostnaði sem hleypur upp í þetta.

Við höfum ekki rætt það í fjárlaganefnd hvar þessi starfsemi mun fara fram. Okkar hlutverk snýr að því að sjá til þess að rekstur stofnana gangi eftir samkvæmt þeirra plönum og að þær fái þá fjármagn til þess eða grípi til annarra ráða. Ég vonast hins vegar til þess og hvet Fiskistofu til þess auðvitað að sjá til þess að þessi starfsemi dreifist sem víðast um landið en verði ekki eingöngu til aukningar á umfangi stofnana á höfuðborgarsvæðinu.