143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist að menn séu að gera mikið átak í því að bæta framlagningu fjárlaga og fylgifrumvarpa, og stefna að því. Ég veit að framlagningu fjárlagafrumvarps var frestað til 1. október á sínum tíma, sömuleiðis fylgifrumvarpa, en samt sem áður held ég að þetta sé nú til bóta, ég held við eigum að líta frekar á þróunina, að hún sé jákvæð, þó að þessi tvö atriði hafi dottið upp fyrir.

Ég vil minna á að í 2. umr. gefst mönnum tækifæri á að koma nokkuð oft upp og geta rætt þetta mál um sjúklingaskatta sem þeir kalla svo í hörgul. Ég verð glaður að svara þeim spurningum vegna þess að ég hef kannað þetta mál sérstaklega, hvernig greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu er háttað. Það er orðið mjög ankannalegt að þeir sem fara inn á spítala dagpart, fara í svokallaðar kviðsjáraðgerðir sem eru orðnar mjög mikið notaðar og mjög nútímalegar og mjög þægilegar fyrir sjúklinginn og á allan máta til framdráttar og til bóta — að þar þarf sjúklingur meira að segja að borga sjálfur og hann borgar allt í kringum það. Hann er ekkert minna veikur en sá sem er skorinn upp með hefðbundnum hætti. Það er hægt að skera hann upp með kviðsjáraðgerð sem gerir að verkum að hann getur farið heim til sín að kvöldi, þá borgar hann aðgerðina, hann borgar myndatökur, blóðrannsókn, lækniskostnað, hjúkrunarkostnað o.s.frv. Þetta er því orðið dálítið mikið misræmi á milli sjúklinga, þeirra sem leggjast inn og borga ekki neitt og hinna sem fara í svona aðgerðir. Það gefst gott tækifæri til þess núna að ræða þetta í hörgul.