154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er í rauninni tiltölulega auðvelt að búa til tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu. Það þarf bara að segja hversu mikið þarf að byggja. Það er ekkert mikið flóknara en það. Því þarf að fylgja raunhæft kostnaðarmat. Ég sé í rauninni hvorugt í þessari þingsályktunartillögu þegar allt kemur til alls. Það sem er í þessari þingsályktunartillögu eru hins vegar síðan aðrar aðgerðir til að liðka fyrir. Það er nefnilega áhugavert að sjá hérna í fjármögnun húsnæðisstefnu og aðgerðaáætlunar fyrir árin 2024–2028 að þá er verið að fara yfir árin frá 2022, hversu margar íbúðir eru að koma inn á markaðinn. Það er gert ráð fyrir því í þessum rammasamningi sem þarna liggur undir að það eigi að byggja 35.000 íbúðir á næstu tíu árum en fjöldinn sem er búið að vera að byggja eru 2.680 árið 2022, 2.276 hafa komið inn á markaðinn það sem af er ári 2023 og svo kæmu 2.800 árlega á markaðinn árin 2023, 2024 og 2025, og 2026 verða þær aðeins um 2.000 talsins. Þetta er miðað við það sem er í byggingu í dag. Það væri kannski hægt að gefa aðeins í fyrir 2026 nú í dag, ekkert mikið meira sem fylgir. En alla vega, þetta margar íbúðir á ári eru ekki nóg til að ná upp í þessar 35.000 íbúðir fyrir tíu árum.

Að auki kemur hérna fram að niðurstaða þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðismálum fyrir árið 2023 er að byggja þurfi 37.000 íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun, með leyfi forseta:

„Í þeirri greiningu er ekki tekið mið af nauðsynlegri uppbyggingu til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf …“

Þetta segir allt sem segja þarf í rauninni um þetta plagg. Ég átta mig ekki alveg á því. Aftur, með leyfi forseta, það var mat „hagdeildar HMS að byggja þurfi 3.000−4.000 íbúðir árlega næstu 5−10 árin til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf …“ og það eigi að byggja — þurfi að lágmarki 4.000 íbúðir fyrstu fimm ár samningsins, rammasamnings sem var verið að tala um hérna, upp í 35.000 íbúðir. Við erum langt frá því, bara slattalangt frá því. Þannig að ég átta mig ekki alveg á því — jú, jú, það er gott að setja stefnuna um það og „alle grejer“ en ef þær áætlanir sem hafa verið gerðar nú þegar hafa ekki staðist þá veit ég ekki hverju samþykkt þingsályktun breytir því að við höfum samþykkt fjárlög á hverju ári sem gera ráð fyrir því að það þurfi að klára þessar íbúðir, þennan fjölda íbúða til að dekka þennan óuppfyllta íbúðaskafl sem er búinn að safnast upp en það hefur ekki gerst. Það er gott og blessað að leggja fram enn eitt plagg í viðbót sem segir að við ætlum samt að gera þetta, en fjármagnið sem kemur hérna fram er bara alveg nákvæmlega sama og það hefur alltaf verið. Það er rosalega mikið fjármagn hérna 2024, á næsta ári, það er ákveðin uppsöfnuð fjárheimild í rauninni fyrir undanfarin ár þar sem markmiðum hefur ekki verið náð.

Það er áhugavert að skoða aðgerðaáætlunina með tilliti til þess að það eru — þetta eru 43 aðgerðir, taldi ég hérna í fljótheitum. Þar af eru sex aðgerðir sem ná til ársins 2028, út allan aðgerðatímann, þannig að af því getur maður áætlað sem svo: Allt í lagi, það er mikið fjármagn á árinu 2024 þannig að kannski er þetta framhlaðin aðgerðaáætlun en það eru einungis átta aðgerðir sem eru í rauninni bara fyrir árið 2024. Allar hinar aðgerðirnar ná eitthvað lengra fram í tímann, 2025, 2026, 2027 eða 2028. Þannig að þessar átta aðgerðir sem eru í rauninni bara fyrir næsta ár af þessum 43 sé ég ekkert að séu rosaleg framhlaðning. Átta sinnum fimm eru 40, ekki 43, þetta er bara nákvæmlega svona skiptingin einhvern veginn, átta aðgerðir á ári. Ég sé ekki framhlaðninguna alla vega í þessu. Kannski eru það stórar aðgerðir, nauðsynlegar aðgerðir til þess að ná að klára þetta. En aftur erum við búin að samþykkja fjárlög á hverju ári undanfarin ár, búin að samþykkja fjármálaáætlanir sem gera ráð fyrir því líka að húsnæðisuppbyggingin verði næg en hún hefur ekki verið það.

Ég endurtek aftur: Það er rosalega auðvelt að búa til svona plagg um stefnu í húsnæðismálum o.s.frv. Hún snýst um að byggja hús, byggja íbúðir, og það þarf einfaldlega að klára það. Ég hlakka til þess að sjá rökstuðninginn á bak við það, hvernig þetta muni í alvöru klárast og þessar 2.000 íbúðir sem vantar upp á til að klára bara í rauninni matið á núverandi stöðu vegna fólksfjölgunar sem voru 37.000, sem er þó án þessa fjölda íbúða sem vantar til þess að safna upp í óuppfyllta íbúðaþörf og hvernig við ætlum að leysa það vandamál því að þessi stefna leysir þann vanda ekki. Ég vona að þingið geri kannski betur. Ég veit ekki hvaða skilaboð þarf að senda til ríkisstjórnarinnar til að leysa þetta vandamál, það kemur alla vega ekki frá ríkisstjórninni.