135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:50]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi fylgst með því sem er að gerast á loftslagsráðstefnunni á Balí, hvort menn hafi yfirleitt kynnt sér málin. (Gripið fram í: Örugglega …) Þar snúast samningarviðræðurnar um það að setja sér 2°C markið.

Halda hv. þingmenn að það sem hér er sett fram um að halda hlýnuninni innan 2°C og draga úr losun fyrir 2020 um 25–40% séu markmið fyrir alla aðra? (Gripið fram í.) Er útúrsnúningaleikfimi hv. þingmanna komin þangað að þetta eigi við um alla aðra (Gripið fram í: Hvað var fjármálaráðherra að segja?) en Íslendinga? Þetta er stefnumörkun íslenskra stjórnvalda við samningaborðið á Balí. Þar snýst allt um það að fá öll lönd heims að borðinu, stóru losendurna, og fá samkomulag um það að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020.

Þeir sem hafa kynnt sér málið, frú forseti, vita hvað það þýðir að miða við 2°C. Þeir vita hvað það þýðir í stefnumörkun íslenskra stjórnvalda. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, bara af því að hún er spæld og fúl, að koma hér upp og álykta út í hött. (Gripið fram í.) Þetta er stefnumörkun íslenskra stjórnvalda. Ég bið hv. þingmenn um að kynna sér hvað er að gerast á aðildarríkjaþinginu á Balí, um hvað samningaviðræðurnar snúast og hvað þeir þá vilja leggja þar fram.

Þær snúast um það að ná samkomulagi um 2°C og mestu minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020 svo að hægt sé að snúa hlýnuninni við. (Gripið fram í.) Um það snýst málið og ef hv. (Forseti hringir.) þingmenn Vinstri grænna vita það ekki er þeim ekki viðbjargandi í sinni umhverfisvernd. (Gripið fram í.)