149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

endurmat á hvalveiðistefnu Íslands.

47. mál
[17:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna, en verð eiginlega að viðurkenna að ég skildi ekki alveg á hverju hv. þingmaður byggir afstöðu sína. Nú ætla ég viðurkenni það að ég hef miklar mætur á hv. þingmanni og mér finnst yfirleitt mjög gaman að hlusta á rök hans fyrir ýmsum málum. Oft er ég þeim sammála en ekki alltaf og mér þótti hv. þingmaður fara svolítið vítt yfir.

Hv. þingmaður talaði um ákveðna siðferðisþróun og það er alveg ljóst að það er vaxandi hópur fólks sem vill til að mynda ekki borða dýr á þeim forsendum að það sé dýraverndunarsinnar. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sjónarmiðum og hefur ákveðinn skilning á því.

Mér fannst samt hv. þingmaður tala um að hann væri ekki almennt á móti því að dýr væru drepin til að fæða fólk, þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvert við erum að stefna ef við ætlum að byggja afstöðu okkar á einhverri siðferðislegri þróun. Ég velti þá fyrir mér hvort við séum ekki að falla fyrir einhvers konar tilfinningarökum gagnvart sumum skepnum umfram aðrar skepnur. Hv. þingmaður nefndi hér einn hval á móti, ég veit ekki, 100 þúsund kjúklingum eða hvað það kann að vera. Eru það þá ekki einhvers konar tilfinningaleg rök að hvalur lúti einhverjum öðrum lögmálum? Hvað með þá fallegu hreindýrin sem fólk skýtur? Eigum við að banna þær veiðar líka? Ég meina, þau eru líka voða falleg. Eða selir, einstaklega falleg dýr.

Hv. þingmaður kom líka aðeins inn á þjóðernisþrjósku sem mér finnst reyndar mjög skemmtilegt orð. Ég held að ég sé almennt ekkert rosalega þrjósk og hvað þá þjóðernisþrjósk, en ég velti því fyrir mér að gefa eftir samkvæmt tilfinningarökum ákveðinna aðila sem eru kannski ekki byggð á vísindalegum forsendum. (Forseti hringir.)Ég verð að koma að næsta atriði í seinna andsvari.