Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

37. mál
[16:50]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, og hlustið nú vel, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Þetta frumvarp er eiginlega bara um það að breyta þessu pínulítið. Það er svolítið erfitt fyrir fólk þegar maður er að hringja inn í þjónustu- og þekkingarmiðstöð og fær alla þessa romsu. Frumvarpið felur einfaldlega í sér að breyta lögum nr. 160/2008 og breyta heiti stofnunarinnar. Með mér á frumvarpinu eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, sem sagt þingflokkur Flokks fólksins.

Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr. Í stað orðanna „þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: Sjónstöðina.

2. gr. Í stað orðanna „Þjónustu- og þekkingarmiðstöð“ í 1. mgr. 8. gr. a laganna kemur: Sjónstöðin.

3. gr. Heiti laganna verður: Lög um Sjónstöðina.

4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og segir í greinargerð er með frumvarpinu lagt til að heiti þeirrar stofnunar sem sinnir þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu verði breytt. Stofnunin heitir nú því óþjála heiti, og nú ætla ég að fara með það fyrir ykkur, virðulegi forseti, eina ferðina enn: Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Heiti stofnunarinnar er því 13 orð og heilir 144 bókstafir. Lengst af hét þessi stofnun lögum samkvæmt Þjónustu- og endurhæfingarmiðstöð sjónskertra en gekk undir nafninu Sjónstöðin. Við endurskoðun laga í gegnum árin hefur heitið ítrekað tekið breytingum og stafafjöldinn aukist. Það tíðkast almennt ekki í heiti annarra stofnana að telja upp í heiti þeirra hvert og eitt einasta viðfangsefni stofnunarinnar. Því er engin ástæða til að beita þeirri formúlu einungis um heiti þessarar stofnunar. Það er kominn tími til að gefa stofnuninni venjulegt heiti, heiti sem við þekkjum öll og við sem höfum fengið að njóta þjónustu þessarar frábæru þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar könnumst sannarlega við heitið Sjónstöðin. Nafnið Sjónstöðin lýsir vel hlutverki stofnunarinnar sem er að aðstoða þá sem eru blindir, sjónskertir eða með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Auk þess kannast margir við heitið, enda var starfrækt Sjónstöð allt frá árinu 1987 til 2008, þegar var farið að hringla með það í allar áttir.

Þetta er eitt af þessum málum sem er auðvelt að greiða úr og auðvelt að einfalda með einfaldri lagabreytingu á lögum nr. 160/2008, sem gilda um stofnunina. Þetta er eitt af þeim málum þar sem þarf ekki að velkjast í neinum vafa um að það kostar ekki krónu. Þetta einfaldlega einfaldar hlutina mjög mikið. Ég ætla bara að segja ykkur það að ég hef notið þjónustu þessarar miðstöðvar sem gerði mér í rauninni kleift að ganga menntaveginn á efri árum, þau stækkuðu fyrir mig allt lesefni þannig að ég gæti verið í laganáminu, allt lesefnið. Það var reyndar búið að taka ansi langan tíma að bíða eftir því kraftaverki þannig að maður var kominn vel yfir miðjan aldur þegar það gekk eftir, en það gekk eftir. Þetta er stofnun sem sannarlega þarf að taka utan um og fylgja eftir. Mig langar bara í lokin að segja að þegar ég hef hringt einmitt í Sjónstöðina þá kemur þetta einfaldlega: Góðan daginn, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, góðan dag. Þetta er ótrúlegt.

Virðulegi forseti. Ég hlakka bara til og býst við að þetta mál fái algerlega flug í gegnum þingið því að okkur er ekkert að vanbúnaði að koma til móts við það góða starfsfólk sem þar vinnur og er að biðja okkur um að einfalda þetta heiti og gera það að því sem við öll sem höfum þurft að nota þessa stofnun þekkjum mjög svo vel. Við vísum þessu frumvarpi til hv. velferðarnefndar.