145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

fjárveiting til löggæslu.

[10:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Löggæsluáætlunin verður hluti af stærri áætlanagerð sem heitir réttarvörsluáætlun þar sem undir eru líka áætlanir í fullnustumálum og aðrar áætlanir sem lúta að dómskerfinu og réttarkerfinu í heild sinni. Ég á von á því að þessi áætlun birtist okkur á vorþingi. Ég hef lagt áherslu á það að vinnu við hana verði hraðað eins og kostur er vegna þeirrar umræðu sem hér er og aukins álags á löggæsluna. Það er alveg ljóst að við getum ekki búið við það um langan tíma að þrengt sé að henni þegar svona stór ný verkefni birtast okkur. Við leggjum því áherslu á að sú vinna gangi hratt og vel. Það skiptir auðvitað líka máli að hún sé vönduð og skapi þann grundvöll sem þarf fyrir löggæsluna í framtíðinni. Það er mikið lykilatriði að vel takist til. Ég hef fulla trú á að því að þessi vinna muni skila okkur betri grundvöll til að skipuleggja löggæslumál til framtíðar.