150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það sem er fyrst og fremst fjallað um í þessu frumvarpi eru auðvitað þau lyf sem hafa gengið í gegnum flókið rannsóknar- og prófunarferli og teljast vera gagnreynd aðferð til að bregðast við sjúkdómum eða slysum. Það er líka afar mikilvægt í slíku rannsóknarferli að kanna ekki bara virkni viðkomandi efna heldur ekki síður aukaverkanir af viðkomandi efnum vegna þess að það kann að orka tvímælis, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að setja efni á markað þar sem ekki er vitað nákvæmlega hvaða aukaverkanir viðkomandi efni getur haft. Við sjáum það í þeim löndum þar sem regluverkið er gisnara hvað þetta varðar að þá sitja einstaklingar og líka einstaklingar í veikri stöðu uppi með afleiðingar sem þeir þurfa síðan sjálfir að glíma við.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um stöðuna þegar kemur að lyfjaskápum sem eru fullir af lyfjum sem eru jafnvel ekki notuð o.s.frv. Í frumvarpinu er sérstaklega fjallað um og er sérstakt ákvæði um það að læknar eigi að stuðla að skynsamlegri notkun lyfja við ávísun. En það er líka sérstaklega um það fjallað í frumvarpinu og er afar mikilvægt og í minni framkvæmd sem heilbrigðisráðherra að leggja aukna áherslu á þekkingu lyfjafræðinga í heilbrigðisþjónustunni, hvort sem við erum að tala um í heilsugæslunni eða annars staðar, að þeir hafi ríkara hlutverk í lyfsölunni og að þeir hafi ríkara hlutverk á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Þegar við erum komin með lyfjafræðinga inn í heilsugæsluna geta þeir haft það hlutverk að fara yfir þau lyf sem viðkomandi er með og hefur fengið ávísað og leggja mat með sjúklingnum á það hvort ástæða sé til að staldra við þar af einhverjum ástæðum.