Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:17]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jafnvel þótt menn hefðu tekið mörg ár í að setja nákvæmlega niður hverjum ætti að selja orku, hvað ætti að gera, þá gætu menn breytt þeim áætlunum strax daginn eftir. Hv. þingmaður þekkir það mjög vel hvað þróunin er hröð á þessu sviði og það mun ekki hægja á henni. Það er margt sem tekur mikla orku í dag. Hv. þingmaður var að fræða okkur áðan um rafmyntir, um hvað það færi misjafnlega mikil orka í þær, sem voru fréttir fyrir mig. Ég þekki það ekki jafn vel og hv. þingmaður, en sú þróunin er hröð á öllum sviðum. Það sem við erum að gera núna, og aftur; þingið á að koma að því og ég myndi ætla að hv. þingmenn myndu fagna því, er að reyna að fá eins góðar upplýsingar og við mögulega getum um stöðu mála, við getum sagt raforkumála í stóru samhengi, um orkuskiptin, hvað þarf mikið í þau miðað við þær upplýsingar sem við höfum núna. Síðan vitum við að það er ýmis önnur atvinnustarfsemi sem margir horfa til. Ég hef ekki heyrt menn nefna, við getum sagt hina hefðbundnu stóriðju nema hv. þingmann og einhverja fáa aðra, en aðrir hafa ekki rætt slíka hluti við mig.