Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Kannski er rétt að byrja á að nefna það að hugmyndafræði rammaáætlunar skiptir gríðarlega miklu máli. Þó að framkvæmdin hafi kannski ekki verið eins og best væri á kosið þá þarf bara að laga þann ramma sem er utan um hana vegna þess að þetta er ferli sem, ef vel tekst til, gjörbyltir því hvernig við nálgumst orkuvinnslu í landinu. Það var nefnilega þannig að áður en hugmyndafræði rammaáætlunar var lögfest var allt landið í nýtingarflokki. Rammaáætlun snýst um að berjast ekki um einstaka virkjunarkosti hvern fyrir sig. Við þekkjum hvernig sú barátta endar, hún endar yfirleitt þannig að virkjunarsinnar og fjármagnseigendur hafa betur. Náttúran tapar. Með því að vera með heildarmat á öllum þeim kostum sem orkufyrirtækin sjá fyrir sér að vilja mögulega nýta sér þá erum við komin á allt annan stað.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra minnti okkur á að síðast þegar Alþingi samþykkti tillögu um rammaáætlun var árið 2013, síðan séu liðin níu ár og á þeim tíma hafi mikið breyst. Sama mætti í raun segja um þá tillögu sem liggur hér fyrir þinginu. Hún var, eins og ráðherra rakti, unnin árið 2016. Það eru sex ár og á þeim tíma hefur mikið breyst. Það er dálítið kúnstugt að tillaga, sem er ætlað að taka afstöðu til heildarmyndarinnar, breytist ekkert á sex árum. Samfélagið hefur svo sannarlega breyst á sex árum. Við erum t.d. með Hvalárvirkjun í nýtingarflokki í þessari tillögu Sigrúnar Magnúsdóttur sem þrír umhverfisráðherrar hafa endurflutt. Ég held að afstaða almennings til Hvalárvirkjunar hafi breyst mjög mikið síðan árið 2016. Ef ég man rétt þá var bara mjög lítið rætt um hana á þeim tíma, en mjög mikið í dag. Það að tillögu sem er ætlað að leggja mat á heildarmyndina sé teflt fram hér í 3. áfanga, á sama tíma og 4. og 5. áfangi eru í vinnslu uppi í ráðuneyti, segir að þar er engin heildarmynd. Það eru þrjár myndir til skoðunar og það hlýtur að teljast eðlilegt að þær talist eitthvað við. En þessi áætlun frá árinu 2016 er bara eins og í einhverju tímahylki.

Hæstv. ráðherra fór yfir tilurð þessarar tillögu en það segir ekki alla söguna að fara bara yfir tímalínuna eins og ráðherrann gerði heldur þurfum við aðeins að rifja upp átökin sem áttu sér stað og ástæðuna fyrir því að ákveðnir hlutir gerðust á tilteknum tíma. Í mars 2013 skipaði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra verkefnisstjórn sem hélt utan um 3. áfanga rammaáætlunar. Svo voru kosningar, ný ríkisstjórn og Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem umhverfisráðherra og langaði helst að stinga ráðuneytinu bara ofan í skúffu og gleyma því að það væri til. Eitt af hans fyrstu verkum, í júní 2013, var að hætta við að friðlýsa Þjórsárver, bara á síðustu stundu, það var búið að dekka borð og gera brauðtertur þegar ráðherrann hætti við að mæta austur til að friðlýsa Þjórsárver vegna niðurstöðu rammaáætlunar þá um vorið. Þjórsárver fóru í verndarflokk og þá átti að sjálfsögðu að friðlýsa þau. En þarna er einmitt einn af virkjunarkostunum sem mestir hagsmunir snúast um.

Norðlingaölduveita fór í verndarflokk 2013. Þá datt Landsvirkjun í hug barbabrellan að búa til Kjalölduveitu, sem er eins og Norðlingaölduveita nema með öðru nafni. Sem betur fer sá verkefnisstjórn í gegnum þetta og setti Kjalöldu líka í vernd. En þessi virkjunarkostur er einn af þeim sem ég hef töluverðar áhyggjur af vegna þess að hugmyndir Landsvirkjunar um stækkanir, t.d. á Vatnsfells-, Sigöldu- og Hrauneyjarvirkjunum eins og þær liggja fyrir í 4. áfanga rammaáætlunar, meika eiginlega ekkert sens nema ef Landsvirkjun sér fyrir sér að dæla vatni í gegnum Kjalölduveitu yfir í þær virkjanir. Og þar erum við akkúrat komin að dálítið góðu dæmi um það hvers vegna er svo arfaslæmt að vera með rammaáætlun 3, 4 og 5 hverja í sínu horni án þess að við séum að skoða heildarmyndina. En þáverandi umhverfisráðherra dró síðan lappirnar við að skipa faghópana sem áttu að meta virkjunarkostina. Það er kannski gildisdómurinn sem vantaði í tímalínuna eins og ráðherrann setti hana fram.

Faghópar 1 og 2 voru skipaðir í apríl 2014 en svo þurftu þeir að bíða í heilt ár þangað til að þeir fengu yfir höfuð virkjunarkosti til umfjöllunar og þá var komið 2015. Faghópur 1 fjallaði um náttúru og menningarminjar og faghópur 2 um auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu. Það sem breyttist, það sem setti þetta síðan aðeins af stað, var að Sigrún Magnúsdóttir tók við embætti og var ekki alveg jafn mikil fyrirstaða og sá sem hún tók við af. Þannig að í mars 2015, þremur mánuðum eftir að Sigrún Magnúsdóttir tók við, lá fyrir hvaða virkjanir ætti að skoða en faghópur 3, sem skoðar samfélagsleg áhrif virkjana, var ekki skipaður fyrr en í júlí 2015 og tók til starfa í ágúst 2015. Eins og hæstv. ráðherra vék að hér áðan þá skilaði hann ekki eiginlegri niðurstöðu. Hann skilaði skýrslu en ekki einkunnum eins og faghópar 1 og 2. Hið sama gildir um faghóp 4, sem átti að fjalla um efnahagsleg áhrif, hann var ekki skipaður fyrr en í október 2015. Þannig að þessir tveir faghópar, sem voru ekki með lítil verkefni, gátu bara ekkert sinnt þeim. Og af því að við erum að tala um samfélagsleg áhrif virkjana þá skiptir þetta sérstaklega miklu máli, ef við horfum á tilteknar virkjanir, vegna þess að með þessari tillögu leggja stjórnarflokkarnir til að botnvirkja Þjórsá, að setja Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í nýtingarflokk þrátt fyrir áratugabaráttu, liggur mér við að segja, heimamanna gegn þeim virkjunum. Og af því að okkur þykir stundum vænt um varúðarregluna í umhverfismálum þá er kannski rétt að nefna líka að um þær tvær virkjanir segir hér í tillögunni að óvissa sé um virkni seiðafleytna, sem á einhvern veginn að réttlæta að það megi steypa þarna fyrir farveg laxfiska í Þjórsá, þeirri óvissu verði ekki útrýmt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórnin starfar á og þess vegna eigi þetta bara að hafa sinn gang. Glannalegt, myndu sumir segja, gagnvart þeim dýrum sem við erum ekki viss um hvort þoli það að þessir virkjunarkostir fari í nýtingu.

Það er kannski rétt að nefna hér á síðustu sekúndunum mínum að upphaflega gerði verkefnisstjórn ráð fyrir því að Sigrún Magnúsdóttir myndi nýta allan september, allan október og hálfan nóvember til að taka afstöðu til skýrslu verkefnisstjórnar áður en hún legði fram sína tillögu (Forseti hringir.) haustið 2016. Hún tók sér viku í það í staðinn. Þannig að ég tek ekki undir þá sýn ráðherra að það hefði verið verra að setja (Forseti hringir.) tillöguna í 12 vikna samráðsferli aftur hjá ráðuneytinu vegna þess að upphaflega 12 vikna samráðsferlið var bara aldrei virt. (Forseti hringir.) Þessi tillaga byggir ekki á þeim trausta lagagrunni sem hún ætti að byggja á.