146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

117. mál
[19:41]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir framsöguna. Ég get eiginlega ekki á mér setið að eiga örlítinn orðastað við hv. þingmann um þetta mál hafandi skrifað í námi mínu um þjóðerni og þjóðernistákn. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að virðing og helgi tákna verði ekki lögfest, það sé ekki hægt að koma því á með valdboði að ofan. Þess vegna er ég sjálfur þeirrar skoðunar, þrátt fyrir að hafa gegnt því embætti á minni ævi að draga fána að húni að morgni og gæta þess að draga hann aftur niður að kvöldi, að engar reglur eigi að gilda um hvenær fólk megi flagga þjóðfánanum finni fólk hjá sér þá þjóðerniskennd að vilja hylla það að tilheyra íslenskri þjóð, hvenær sem er sólarhringsins, hvenær sem er ársins, fólk eigi að mega gera það án þess að löggjafinn skipti sér af því.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort í vinnu við þetta frumvarp hafi komið upp sú hugmynd að það yrði hreinlega hverjum og einum í sjálfsvald sett hvernig hann og hvenær hann flaggaði fánanum, þrátt fyrir, eins og segir í greinargerðinni, að víða annars staðar á Norðurlöndum sé það á svipaðan máta og hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni?