Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:06]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hæstv. ráðherra sagði hefur margt breyst. Það vakti mikla athygli mína, þegar ég skoðaði þessa rammaáætlun, að nær öll háhitasvæðin í orkunýtingarflokki eru á Reykjanesskaga. Eins og við öll vitum og jafnvel heimurinn allur veit þá er aftur komið tímabil eldgosavirkni á Reykjanesskaga. Það var kannski allt í lagi þegar það voru 200, 300, 400 eða 500 ár þar til eldgos ætti að hefjast á ný. En þessir valkostir hafa verið þarna inni alveg frá því að þetta var fyrst lagt fram og það er því spurning mín til hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið tilefni til að fresta umræðu um þetta mál þar til ráðuneytið hefði uppfært þessar tillögur miðað við hættumat frá sérfræðingum um hvort það sé yfir höfuð hægt að setja upp virkjanir á þessu svæði.