Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[13:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Jú, ég átta mig á þessu. Ég velti reyndar fyrir mér af hverju við erum ekki að ræða ramma 3 til 5 í þessu samhengi. En allt í lagi, það eru þrjú ferli í gangi hérna, við ráðum við það einhvern veginn.

Mig langar til að nota seinni umferðina og spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að hér erum við að ræða ofboðslega viðkvæm mikilvæg mál sem varða stöðu lands og þjóðar til lengri tíma: Finnst ráðherra það tækt að þingið sé að fjalla hér um mögulega þörf eða ekki þörf á fleiri virkjunarkostum á sama tíma og sú orka sem þegar er framleidd í núverandi virkjunum er ekki nýtt vegna þess að við erum með bilað dreifikerfi? Erum við ekki einhvern veginn að byrja á röngum enda hér? Þarf ekki að tryggja að þær fórnir sem færðar hafa verið, t.d. varðandi Kárahnjúkavirkjun, skili sér, að sú orka sem er þar sé fullnýtt? Þarf ekki að tryggja að íslenskur almenningur, sem færði þessar fórnir til að fá trygga græna orku, (Forseti hringir.) fái a.m.k. þá orku sem tilheyrir kerfunum í dag áður en við förum að ræða nýja kosti?