Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:33]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum þetta mikilvæga mál, þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þetta er stuttur tími sem við höfum og mig langar bara að ræða breiðari mynd þess máls sem hefur verið í umræðunni hér í dag, þ.e. þessa stærri mynd sem við þurfum kannski að ræða um leið og málið. Ég vil byrja á að benda á orkustefnunefnd, sem skilaði af sér skýrslu í fyrra sem allir átta flokkarnir sem áttu sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili tóku þátt í, það var þverpólitísk sátt. Hér er verið að ræða um að óska eftir stefnu fyrir landið í orkumálum til næstu ára, en þarna náðist bara tiltölulega góð sátt um að hverju ætti að stefna, a.m.k. á þeim tímapunkti, til næstu 30 ára. Þetta er raunverulega tímamótaplagg þegar við ræðum orkumál í landinu. Það er kannski í fyrsta skipti sem við náum einhverri heildstæðri mynd á hlutina.

Hægt er að benda á það sem þar kemur fram varðandi framtíðarsýn og markmið orkustefnu, 12 meginmarkmið, þá skýru framtíðarsýn sem þar kemur fram. Hún kveður á um að öll orkuframleiðsla sé af endurnýjanlegum uppruna, að orkan sé nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta. Allri orkuþörf sé mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Ísland sé leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu og orkuskiptum og sátt ríki um vernd náttúru og nýtingu orkuauðlinda. Þegar við unnum að stefnunni, við sem sátum í hópnum í tæp tvö ár, var lögð mikil áhersla á að skrifa stutta skýrslu í staðinn fyrir að skrifa einhverja stóra skýrslu. Skýrslan er bara 30 síður, auðlesanleg og í henni er þessi stefnumótun sem við erum að horfa til; við vorum að vona að sem flestir myndu kynna sér hana. Þar er minnst á nokkur af markmiðunum og ekki endilega í röð eftir mikilvægi.

Þar kemur fram að orkuþörf samfélags sé ávallt uppfyllt, að innviðir séu traustir og áfallaþolnir, og það er það sem við lærðum eftir desember 2019 og fyrr í þessari viku, þ.e. með rafmagnsleysið og að kerfin séu áfallaþolin og standist veðráttuna. Að orkukerfið sé fjölbreyttara. Þá erum við náttúrlega að skoða aðra kosti en uppistaðan hefur verið hingað til í vatnsafli og jarðvarma þar með talið vindorku og aðra mögulega kosti í framtíðinni. Að Ísland sé óháð jarðefnaeldsneyti. Að orkuskipti verði á landi, á hafi og í lofti — þær áætlanir hafa komið fram, hverju við ætlum að ná þar. Að orkunýtni sé bætt og sóun lágmörkuð. Að auðlindastraumar séu fjölnýttir. Þar vil ég bara benda á raforkulögin sem við samþykktum í júní. Ég var framsögumaður um ný raforkulög í fyrra, í atvinnuveganefnd. Þar komum við einmitt með nýjungar varðandi glatvarma og nýtingu á glatvarma sem hafði ekki verið í raforkulögum áður. Þetta er því að tínast til hér og þar hér í þinginu. Svo eru fleiri punktar: að gætt sé að náttúruvernd við orkunýtingu, að umhverfisáhrif séu lágmörkuð, að nýting orkuauðlinda sé sjálfbær, að þjóðin njóti ávinnings af orkuauðlindunum, að orkumarkaður sé virkur og samkeppnishæfur, að jafnt aðgengi sé að orku um allt land. Ég vildi bara rétt koma inn á þetta vegna þess að hér hefur verið talað um að það sé ekki nein stefna í þessum málaflokki. En við náðum þessari sátt með stefnunni í fyrra. Ég vildi koma því að í umræðunni.

Í fyrri ræðu í dag kom ég aðeins inn á mikilvægi flutningskerfis raforku og þar vil ég enn frekar benda á, varðandi áætlanagerð og stefnu, að Landsnet setur upp sína tíu ára kerfisáætlun og þriggja ára framkvæmdaáætlun þannig að þar er líka til stefna. Það sem hefur hins vegar gengið mjög erfiðlega síðustu 10 til 20 árin er að framkvæma þessar kerfisáætlanir og framkvæmdaáætlanir Landsnets og ná sátt um lagningu í stóra orkukerfinu okkar eða í flutningskerfi raforku, háspennta kerfinu. Það má því finna þessa stefnumörkun vítt og breitt í kerfinu okkar, hvernig við ætlum að reyna að standa að málum.

Það hefur kannski ekki mikið verið rætt hvernig við ætlum að mæta vaxandi eftirspurn. Eftirspurnin hér á Íslandi hefur síðustu árin aukist um 40–50 MW á ári, það er meðaltal undanfarinna ára og er kannski talan sem við ættum að hafa í huga. Auðvitað er gríðarleg eftirspurn eftir þessari grænu orku eins og sjá má í fréttum úr tölvugeiranum og af gagnaverunum, þar er gríðarleg eftirspurn sem dæmi. Það er því miklu meiri eftirspurn en einhver 40–50 MW þessi árin. Það er í tengslum við fjórðu iðnbyltinguna sem snýst um þessi öflugu fjarskipti og síðan græna orku, sem eru kannski tveir veigamestu þættirnir þar. Við þurfum að ræða hvernig við ætlum að taka þátt í því sem tengist þeim málum, þar verður gríðarleg eftirspurn tengd þessari grænu orku. Við þurfum að móta stefnu um hvað við ætlum okkur að gera. Nú þegar eru það kannski rúm 3% af aflgetu virkjana á Íslandi sem fara í gagnaver. Og það hefur meira og minna gerst á örfáum árum, á fjórum eða fimm árum. Sjálfsagt gætum við tekið alla orku sem við eigum í þessum áætlunum okkar til næstu ára bara í gagnaver. En það er kannski ekki það sem við ætlum okkur.

Auðvitað er hugmyndafræðin á bak við þetta að reyna að gera betur og efla atvinnulíf í landinu með fjölbreyttari hætti. Við höfum litið til gagnavera. Við erum búin að tala mikið um garðyrkju hvað varðar nýtingu á grænni orku og þá möguleika sem í henni felast og svo er örugglega hægt að telja margt annað upp.

Ég kom aðeins inn á flutningskerfi raforku, þegar það kemur inn fyrir 50 árum. Fyrsti áfanginn var raunverulega Rangárvallalína sem er á milli Akureyrar og Varmahlíðar. Hún er byggð, minnir mig, á árunum 1974–1978, er að verða fimmtug. Þá var þetta kerfi að flytja 20–25%, þegar byggðalínuhringurinn var tilbúinn fyrir tæpum 50 árum; 20–25% flutningsgeta sem í dag er 3–4% miðað við aflgetu virkjananna, það sem flutningskerfið getur annað. Þetta er lykilatriði í því hvernig við ætlum að nýta orku í landinu. Eins og ég kom inn á áðan lagði ég einmitt, í vinnu varðandi orkustefnuna, mesta áherslu á flutningskerfi raforku.

Svo er það vindorkan, hvað við Íslendingar ætlum að gera með hana þannig að það sé rætt og reynt að ná einhverri sýn á þau mál. Það er kannski stóra breytingin sem við sjáum á heimsvísu í nýtingu á grænni orku, þ.e. vindorkuframleiðslan eða vindaflið. Við sjáum að þar eru gríðarlegir möguleikar. Eins og ég kom að áðan er nýtingarhlutfall á Íslandi töluvert mikið hærra en við þekkjum á heimsvísu; það er 45–50% á Íslandi en 28%, minnir mig, á heimsvísu. Það vill bara svo til að það blæs svolítið á Íslandi og við þekkjum það. Suðvesturhorn Íslands er eitt af þeim svæðum í heiminum, að mig minnir, þar sem blæs mest í byggð.

Þetta er lykilatriði, finnst mér, varðandi heildarkerfið og nýtingu, hvernig við ætlum okkur að fara í gegnum þetta á næstu árum og áratugum. Það þarf að láta þessi kerfi spila saman, það er það sem ég hef verið að ræða hér, sem er vatnsaflið, jarðvarminn, vindorkan og síðan öflugt flutningskerfi raforku til að spila milli svæðanna. Í dag er raforkukerfið okkar þannig hjá Landsvirkjun — ef ég man tölurnar, ég skoðaði þetta fyrir einu eða tveimur árum — að á suðurhluta landsins, sem er Þjórsár-Tungnaársvæðið og Sogið, var það rétt rúmlega 1.000 MW, 1.021 MW minnir mig, uppsett afl en norðursvæðið, frá Blöndu að Fljótsdalsstöð, var 1.018 MW. Þessu var nákvæmlega skipt til helminga. Þess vegna er svo mikilvægt að tengja svæðin saman og þess vegna vildi ég ræða heildarsamhengi hlutanna en fara kannski ekki of mikið í einstaka þætti varðandi virkjanir eins og er í þessu máli.

Ég tel hins vegar nauðsynlegt að við förum að búa til einhverja sýn á það hvernig við náum sem skjótast markmiðum okkar, um aukna raforkuframleiðslu, þessa grænu raforkuframleiðslu, auðvitað í sem bestri sátt við náttúruna. Ég held að við séum öll stödd þar, að vilja gera þetta sem allra best, og það er okkar að meta hvað er hentugast. Í dag er bara Blöndulundur inni varðandi vindaflið. Í biðflokki er Búrfellslundur. Svo vildi ég kannski — tíminn líður svo hræðilega hratt. Í 4. áfanga rammaáætlunar, út af því að minnst var á vindorkuna áðan, voru 42 kostir en 34 þeirra eru einmitt í vindi. Ég hef talað fyrir því að við eigum að gæta okkar á því að vera ekki með vindorkulundi út um allt land heldur hafa þá á strategískum stöðum, kannski fimm eða sex, hafa þá stærri frekar en minni. (Forseti hringir.) Ég held að það gæti orðið fróðlegt að taka einhverja umræðu um það hvernig við viljum standa að þeim málum.