Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[14:58]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig minnir að það séu tæp tvö ár, eitt og hálft, síðan nefndin skilaði af sér og þáverandi orkumálaráðherra lagði fram framkvæmdaáætlun byggða á orkustefnunni í september, október 2020, málefni til að takast á við í tengslum við þessi mál. Þannig að sú vinna fór af stað. Ég held að það hafi verið ágætisvinna og við þurfum bara að halda áfram á þessari vegferð. Tökum orkuskiptin, þessi þriðju, sem eru þá orkuskipti í samgöngum. Í umræðunni hefur algengasta talan verið, ef við tökum bílaumferðina á vegunum og flutningstæki þar, skipin okkar og flugið, 1.200 MW sem er fyrsti áfangi, 300 MW væru samgöngur á landi og bara til að setja þetta í samhengi í dag þá er aflgeta virkjana á Íslandi um 3.000 MW. Þetta eru 40%. En nota bene, þetta er kannski eitthvað sem kemur inn á 20 árum sirka. En ég sagði áðan að notkun hefur verið að aukast um 40–50 MW á hverju ári og það hefur kannski verið meira í almenna atvinnulífinu og í uppbyggingu á því. Nú höfum við líka verið að ræða fjarskiptin og takast á við þau og það er búið að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi á Íslandi. Við ætlum að leggja áherslu á þessa fjórðu iðnbyltingu. Hún er bara um þetta, öflug fjarskipti og græna orku. Fjórða iðnbyltingin fer ekki fram nema með grænni orku.