Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:35]
Horfa

Thomas Möller (V):

Frú forseti. Umræðan í dag um vernd og orkunýtingu landsvæða er að mínu mati eitt af þessum stóru málum þingsins. Hvers vegna segi ég það? Jú, stærsta verkefni samfélagsins á næstu árum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ein af meginforsendum þess er að tryggja framkvæmd orkuskipta í landi grænnar orku. Orkumál og umhverfismál eru samtvinnuð og hafa áhrif hvort á annað. Ísland er í algjörri sérstöðu í orkumálum. Það vekur athygli um allan heim þegar við segjum með stolti frá því að 99,9% allrar raforku er framleidd hér með endurnýjanlegum orkugjöfum. En við þurfum meiri orku og betra flutningskerfi ef við ætlum að fara af krafti í hröð orkuskipti. Til viðbótar þarf orku fyrir fjölgun hátæknifyrirtækja, aukið fiskeldi á landi, stóraukna grænmetisræktun og græna atvinnuuppbyggingu.

En það eru blikur á lofti í orkumálum, eins og hæstv. ráðherra sagði hér í morgun, og er þá vægt til orða tekið að mínu mati. Í morgun var forsíðufrétt í Morgunblaðinu þar sem sagði að á miðnætti síðastliðnu hafi tekið gildi takmarkanir á afhendingu raforku til fjarvarmaveitna víðs vegar um landið, stóriðju og gagnavera. Þetta kom í kjölfar fyrri skerðinga til fiskimjölsverksmiðja sem nú nota þúsundir tonna af olíu í stað rafmagns í vetur. Þetta eru ekki orkuvandamál, þetta er orkukrísa. Ég kalla þetta krísu, ég finn bara ekkert betra orð fyrir það ótrúlega ástand sem komið er upp skyndilega í landi sem framleiðir mesta raforku á mann í heiminum. En hvar liggur rót vandans? Liggur hún í rangri forgangsröðun við sölu rafmagnsins, skorti á virkjunum, orkutapi í flutningi, ónógri flutningsgetu eða vegna þess að það rignir og snjóar ekki nóg í landinu, sem kemur mér reyndar töluvert á óvart? Vissulega eru orkumálin flókin. Ef það er næg orka á Austurlandi, sem dæmi, þá getur reynst erfitt að koma henni suður eða norður vegna ónógrar flutningsgetu. Við erum að tala um tvö samtengd kerfi, virkjunarkerfi og flutningskerfi. Það flækir málið að rafmagn er ekki framleitt á lager, en það getur þó verið geymt í uppistöðulónum sem eru í raun geymslustaður fyrir rafmagn.

Í dag erum við að fjalla um einn hluta kerfisins, virkjunarkerfið, sem heitir áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þessi áætlun er líka flókið mál með margar hliðar. Það er flókið vegna þess að þar er um að ræða samspil náttúruverndar og virkjunar landsvæða. Virkjanir geta haft mikil áhrif á hversu aðlaðandi landsvæðið er fyrir ferðamenn og útivist. Virkjanir geta haft áhrif á dýralíf, gróðurfar, náttúrugæði og menningarverðmæti, svo dæmi séu nefnd.

Fyrir orkufyrirtækin, línufyrirtækin, er þetta einnig flókið mál. Það koma þurr ár og það koma blaut ár. Þrýstingur í borholum getur hækkað og lækkað, jafnvel horfið. Það þarf að gera áætlanir sem byggja á mörgum sviðsmyndum og það er örugglega gert. Það flækir málið hvað það tekur langan tíma að reisa virkjanir og leggja raflínur. En það kemur mér og örugglega flestum landsmönnum á óvart hvað þetta vandamál, orkuskortur og slæmt ástand flutningskerfis, þessi orkukrísa, kemur nýjum ráðherra, hæstv. ráðherra orku- og loftslagsmála, á óvart þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stjórnað orkumálunum samfellt í níu ár. Á þeirra vakt hafa atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni ekki getað fengið nægilega áreiðanlega orku og þurfa þess í stað að reiða sig á olíu. Heilu landsvæðin hafa þar að auki ekki aðgang að rafmagni sem svarar þörf heimila og fyrirtækja, hvað þá þriggja fasa rafmagni. Það er ekki gott að hafa það á tilfinningunni að ríkisstjórnin virðist öll koma af fjöllum í þessu máli og sjá blikur á lofti, eins og kom fram hér áðan. Ég vissi reyndar að vatnið sem býr til rafmagnið kemur af fjöllum og það hefði kannski átt að duga. Ríkisstjórnin hefur brugðist almenningi og fyrirtækjum í landinu með því að taka ekki nógu föstum tökum á þessu máli og framkvæma ekki í samræmi við spár og tillögur. Í því sambandi vil ég geta þess að öll fyrirtæki gera spár um tekjur, gjöld og þróun eigna, aðföng, þar með talið orkuþörf og margt fleira, heimili gera sínar spár. Þetta þekkjum við öll.

Ríkisvaldið gerir líka spár um íbúaþróun, byggðamál, efnahagsmál og margt fleira. En mikilvægasta spáin sem hið opinbera gerir er orkuspá, einmitt það sem við erum að tala um hér í dag, þar sem er áætlað langt fram í tímann hver þörfin er og hve framleiðslan þarf að vera. Orkuspá og orkumál eru þannig ein af mikilvægustu málum stjórnvalda hverju sinni og mikilvægið hefur einmitt aukist á síðustu árum vegna krafna um grænt hagkerfi. Það á ekki að vera flókið mál að leggja saman þarfir heimila, fyrirtækja og stofnana í orkumálum og bera saman við framboð og flutningsgetu langt fram í tímann. Þess vegna vekur það furðu mína og allra landsmanna, segi ég, að allt í einu er kominn orkuskortur í landinu. En ég segi: Þetta er ekki orkuskortur, þetta er skortur á frumkvæði, skynsemi, framsýni, þori, ákveðni og áræðni. Fyrirhyggjuleysið og andvaraleysið í þessu máli er augljóst og ábyrgðin liggur ekki síst hjá flokki núverandi hæstv. ráðherra umhverfis og orkumála, flokknum sem hefur stýrt þessum málum í níu ár, eins og ég sagði áðan.

Ríkisstjórnin þarf að tryggja skynsamlega uppbyggingu nýrrar raforkuvinnslu og styrkingu flutningskerfisins. Mikilvægt er að tryggja að öll virkjunaráform fari í að tryggja orku- og loftslagstengdar aðgerðir og raforkuöryggi. Orkuráðherrann hefur engan umþóttunartíma. Hann þarf nú þegar að taka af skarið og segja skýrt og skilmerkilega hvernig Ísland verði laust við jarðefnaeldsneyti fyrst allra landa og hvaðan orkan á að koma. Frekari kyrrstaða er ekki í boði. Framtíðin og framtíðarkynslóðir kalla á aðgerðir.

Í tengslum við þessa umræðu hef ég rætt við nokkra sérfræðinga á þessu sviði og ég hef fengið þau svör að þessi orkukrísa sé að þeirra mati ekki bara vegna vatnsleysis á hálendinu og skorts á flutningsgetu heldur vegna fyrirhyggjuleysis og frestunaráráttu stjórnvalda. Þar vitna ég í orð þessara sérfræðinga. Stjórnvöld þurfa og verða að stíga ákveðnar inn í máli og ég hvet hæstv. ráðherra taka hressilega á þessu máli eins og hann hefur oft gert. Þetta lítur út eins og orkumálin séu eins og heit kartafla sem enginn vill halda á. Upp í hugann koma orð eins og skortur á skipulagningu og fjármögnun, skortur á forgangsröðun og svo sölu rafmagns og það vekur furðu að við skulum vera að selja gríðarlegt magn af rafmagni til bitcoin-graftrar, sem er einhver sóðalegasta notkun á rafmagni sem til er.

Orkumál eru langtímamál, virðulegi forseti, og það sem er ákveðið í dag kemur til framkvæmda næstu 10–20 árin. En allt síðasta kjörtímabil sátu fyrrverandi orkumálaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra með hendur í skauti. Það er engin hreyfing, það er algjör kyrrstaða. Fyrir vikið höfum við tapað dýrmætum tíma í baráttunni fyrir umbótum og raunverulegum árangri í loftslagsmálum. Kyrrstaðan stafaði ekki af skorti á undirbúningi, ekki skorti á skýrslum eða þekkingu og ekki skorti á tölfræðilegum gögnum. Allir vissu hvað þurfti að gera. Ástæðan fyrir athafnaleysinu var pólitískt samkomulag stjórnarflokkanna um kyrrstöðu. Störukeppni stjórnarflokkanna hefur verið dýrkeypt þjóðinni.

Ég hvet því stjórnvöld og hæstv. ráðherra að taka á þessu máli af skynsemi, fyrirhyggju, kjarki og ákveðni og tryggja að þessi mál komi ekki lengur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég hvet hæstv. ráðherra og allan þingheim til að taka orkumálin traustum tökum. Ég talaði um orkukrísu í upphafi málsins. Í kínversku er sama orðið notað um krísu og tækifæri. Nýtum þessa krísu og snúum henni upp í tækifæri sem tryggja að Ísland verði áfram til fyrirmyndar í umhverfisvænum orkugjöfum.

Virðulegi forseti. Viðreisn vill tryggja orkuöryggi til framtíðar. Við erum með það á stefnuskrá okkar að orkukostir verði áfram flokkaðir með tilliti til áhrifa á náttúru, menningu, minjar, samfélag og efnahag. Við í Viðreisn viljum tryggja orkuöryggi um land allt með uppbyggingu og styrkingu flutningskerfis raforku og koma í veg fyrir að orkuskortur hamli byggðaþróun og þróun í efnahagsmálum.