Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Svo við byrjum á aðalatriðinu: Til hvers er þetta þingmál? Það er til þess að tryggja heimilum örugga orku og, miðað við það hvernig við höfum sett upp lög og reglur hjá okkur, mögulega einmitt litlum fyrirtækjum. Það er markmiðið með orkuáætlun hverju sinni. En þetta er ekki orkuáætlun, þetta er áætlun um vernd og orkunýtingu. Það vantar í rauninni stóra samhengið í þetta sem er síðan hvernig nota á orkuna. Það er að mínu mati eitthvað sem þarf að vera til fyrst og á náttúrlega alltaf að vera til. Í hvað vantar okkur orku? Það eru til greiningar á því, sviðsmyndir hjá Orkustofnun. Það eru þrjár sviðsmyndir sem þar eru taldar upp; sviðsmynd um það hvernig orkuþörf mun þróast á næstu árum ef við höldum nokkurn veginn svipuðum dampi og áður. Það er sviðsmynd um græna framtíð, sem eru ákveðin orkuskipti og gerast hraðar en í óbreyttu ástandi, og það samræmist í rauninni þessum markmiðum um samdrátt í kolefni um 55% og kolefnishlutleysi. Og svo er það stóriðjustefna. Þá er það bara gróflega áætlað hversu mikla orku þarf í þessar þrjár mismunandi sviðsmyndir. Það sem vantar kannski í það, og er pólitísk ákvörðun, er hvernig á að afla orkunnar til þessara mismunandi sviðsmynda og hvernig blandan af þeim mismunandi sviðsmyndum er að mati stjórnvalda, þ.e. hver stefna stjórnvalda er í þessu. Á að fara í að auka eða viðhalda sama stóriðjustigi og er núna? Á að minnka það hlutfall í heildarorkunotkun eða ekki? Það er lykilspurning varðandi það hvaðan við fáum orkuna, ekki bara úr þeim virkjunarkostum sem við afgreiðum mögulega með þessu, heldur einmitt úr þeim orkukostum sem þegar eru í notkun.

Eins og hv. þm. Thomas Möller kom inn á fyrr í umræðunni í dag þá eru miklir möguleikar á aukinni orkuframleiðslu með tækniþróun. Mig langar að líta enn lengra til framtíðar, vonandi ekki of langrar framtíðar þar sem við munum alveg örugglega, að mínu mati og vísindamanna, vera með kjarnasamrunaorku. Þá þurfum við ekki virkjanir, vatnsaflsvirkjanir og jarðhitavirkjanir, eða jú, jú, við notum væntanlega — ekki einu sinni hitaveitu í rauninni. Þá væri miklu hagkvæmara að vera með ósnortið land, miklu hagkvæmara. Hvenær sú framtíð mun raungerast er erfitt að segja til um — bara mjög nýlega var þó nokkuð stórt skref stigið t.d. í kjarnasamrunatilraunum — eftir 50 ár eða eitthvað því um líkt, segjum það, það er bara gróf ágiskun. Tæknin þróast oft hraðar en við búumst við svona út frá Murphy-lögmálinu. Veldisvöxturinn í tækninni er oft illskynjanlegur fyrir okkur, illskiljanlegur líka, þannig að það sem við sjáum kannski sem línulega framþróun upp á 50 ár gæti gerst á 25 árum, þess vegna. Það er ekkert rosalega langt inni í framtíðinni.

Orkustefnan sem þarna er undir er til ársins 2060, ef ég fer ekki rangt með, það er bara eftir minni. Við erum þá bara þar. Þá erum við mögulega komin í þann raunveruleika að við setjum niður kjarnasamrunaver hér og þar um landið, þurfum við ekki á miklu dreifikerfi að halda af því að öll orkan er framleidd staðbundið? Hvað þýðir það í heildarsamhenginu? Að sjálfsögðu förum við ekki bara með það í bankana og segjum að þetta mun vera í framtíðinni og að við viljum brúa bilið og vera örugg, sama hvort þetta gerist eða ekki, að við getum tryggt orkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja fram að þeim tíma.

En á sama tíma viljum við einmitt stíga varlega til jarðar af því að þær framkvæmdir sem við leggjum til hérna hafa varanleg áhrif á umhverfi og náttúru, sem verður óendanlega mikið verðmætara í framtíð sem þarf ekki á slíkri röskun að halda til að sinna orkuöryggi. Þannig að miðað við framsögu og svör hæstv. ráðherra þá lítur út fyrir að það séu sviðsmyndir um græna framtíð sem verið er að leggja aðaláherslu á. Það er gott og vel. Stjórnarsáttmálinn bendir einmitt til þess líka. Samkvæmt sviðsmyndum Orkustofnunar gefur það okkur ákveðna tölu um hversu mikla orku við þurfum í viðbót. Sú tala er þegar dekkuð af þeim virkjunarkostum sem eru ónotaðir, hvað þá þeim orkukostum sem gætu verið uppfærðir með betri tækni. Þannig að það verður áhugavert að sjá hvernig verður fjallað um þetta í nefndinni í umræðunni um þetta þingmál, um þessa þingsályktunartillögu.

Ég nefndi hérna fyrr og í sérstökum umræðum eða óundirbúnum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra að mesta raforkunotkun á Íslandi fyrr og síðar var árið 2018. Síðan þá hefur raforkunotkun farið minnkandi, ekki bara út af Covid, það var árið 2019 líka. Það er dálítið merkilegt. Og þetta gerist ofan í sögusagnir um að rafmyntir séu að sópa upp heilum hellingi af orku, þrátt fyrir það. Það er að vísu líka vandamál, sérstaklega hvað varðar rafmyntina bitcoin, kannski síður aðrar. Sú rafmynt er gríðarlega mikið vandamál og slagar upp í orkunotkun Íslands á heimsvísu eftir einhverjum mælikvörðum, kannski aðeins minna en það.

En rafmyntir er mjög áhugaverðar og ekki tækni sem við eigum bara að slá út af borðinu eins og hún leggur sig. En það eru mismunandi útfærslur af rafmyntum sem nota mismunandi mikið af orku og við eigum tvímælalaust að segja nei við þeim útfærslum sem nota eins gríðarlega mikið af orku og bitcoin. Það er gjörsamlega gagnslaust að útfæra það á þann hátt, alla vega að mínu mati.

Ég ætla að enda þetta á því sem hefur verið talað um hérna í umræðunni, að það sé lýðræðisleg umræða í tengslum við þessa þingsályktunartillögu. En það segir einmitt í upphafi greinargerðarinnar: „Að mati umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er mikilvægt að Alþingi fjalli efnislega um tillögur verkefnisstjórnar.“ Sem sagt ekki endilega að afgreiða þær heldur fjalla efnislega um þær. Ég hef það alla vega á tilfinningunni að framlagning þessarar þingsályktunartillögu á þessum tíma, í febrúar — vissulega var ekki hægt að gera það mikið fyrr á þessu þingi út af því hvernig kosningarnar voru o.s.frv. — að það sé tvímælalaust ekki tími til að klára þetta mál á þessu þingi.

Þetta er það umfangsmikið og eins og er sagt hérna þá er nauðsynlegt að hefja samtalið, tvímælalaust. En það myndi hjálpa, ef það ætti að vera lýðræðisleg umræða um þetta mál, að flokkarnir sem leggja fram efnið í umræðuna með ákveðnum fyrirvörum gefi okkur vísbendingu um það hvað þeir þýða. Það virðist vera svo að sumir segi að það megi taka eitthvað úr verndarflokki og setja það í biðflokk og aðrir vilja taka úr nýtingarflokki og setja í biðflokk og það séu einhvers konar hrossakaup eða eitthvað svoleiðis. Er það bara algjörlega óskilgreint? Skiptir engu máli hvað það er, bara að það sé eitthvert rifrildi milli stjórnarflokkanna: Ef þið viljið taka þetta úr verndarflokki þá vil ég taka hitt og svo eru bara einhvers konar samningaviðræður milli stjórnarflokkanna um það nákvæmlega hvaða kostir það eru sem hverfa úr hvorum flokki fyrir sig? Ef við fengjum að vita það fyrir umræðuna þá værum við kannski aðeins lýðræðislegri og gætum talað um tillöguna á opnari hátt.