138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

rannsókn samgönguslysa.

279. mál
[22:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra mælir fyrir frumvarpi til laga um rannsókn samgönguslysa. Í sjálfu sér er margt athyglisvert í þessu frumvarpi. Það kallar hins vegar fram ákveðnar spurningar ásamt því að svara einnig svo sem allnokkrum.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar áðan að líklega ráða för tveir þættir, annars vegar hagræðing og hins vegar að reyna að gera enn betur í rannsóknum á þessum slysum. Er það að sjálfsögðu vel. Þegar ég skoða þetta frumvarp og velti fyrir mér því svari sem hæstv. ráðherra veitti við fyrirspurn þingmannsins hér ekki alls fyrir löngu velti ég fyrir mér og spyr ráðherra hvort leitað hafi verið til þeirra stofnana, eins og þær eru í dag, og kannað hvort þær gætu sparað eða hagrætt á móti þeirri kröfu sem kemur fram í þessum hugmyndum. Ef svo er spyr ég hvort tillögur hafi borist frá stofnununum.

Það má vel vera að þetta frumvarp muni bæta og einfalda einhverja hluti en það er, held ég, ekki gallalaust og ýmislegt sem þarf að skoða í nefndinni. Þetta er vitanlega 1. umr., verið að mæla fyrir málinu og eðlilegt að hafa ákveðna fyrirvara á því.

Ekki alls fyrir löngu áttum við hæstv. ráðherra orðastað um Reykjavíkurflugvöll og slökkvilið þar, það tengist óbeint þessu máli. Í texta með frumvarpinu er vitnað í hinn svokallaða Chicago-samning sem m.a. öryggis- og rannsóknarvinna byggir á, t.d. varðandi flugumsjón eða flugrannsóknir og flugslys. Í þeim samningi er, mig minnir í kafla 14 eða eitthvað slíkt, m.a. fjallað um slökkvilið og ég verð að koma því hér á framfæri að mér fannst aðeins skorta á metnað í þeirri umræðu sem við áttum hér, ég og hæstv. ráðherra, um björgunarstörf á flugvellinum.

Í 5. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar fimm menn í rannsóknarnefnd samgönguslysa til fimm ára í senn auk fjögurra varamanna. Ráðherra skipar einn nefndarmanna formann nefndarinnar og annan staðgengil hans. Formaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar, þar með talið fjárreiðum hennar, og gætir þess að starfsemi nefndarinnar sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma.“

Síðan kemur:

„Formaður ræður annað starfsfólk til nefndarinnar.“

Það hefur kannski farið fram hjá mér, ég viðurkenni það, en ég sé ekki í skýringum hvort ráð sé gert fyrir að formaðurinn verði starfandi. Það má lesa út úr þessu að formaður nefndarinnar verði starfsmaður nefndarinnar, þ.e. á launum.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra af hverju í ósköpunum formaðurinn einn eigi að ráða starfsfólk nefndarinnar. Af hverju gerir nefndin það ekki öll? Er verið að búa til frekar stórt og voldugt batterí? Það væri ágætt að fá svör við þessum spurningum. Verður formaðurinn ráðinn sérstaklega og í fastri vinnu? Og af hverju ræður nefndin ekki annað starfsfólk?

Í athugasemdum við frumvarpið segir að verið sé að sameina í eina nefnd o.s.frv. Hér kemur fram hver vann þetta fyrir ráðuneytið. Einnig finnst mér eins og hans nafn hafi komið fyrir í svokallaðri Icesave-umræðu einhvers staðar, ég man það þó ekki alveg, en allt í góðu með það.

Síðan stendur á bls. 16, með leyfi forseta:

„Til að tryggja að sú þekking sem til staðar er í núverandi rannsóknarnefndum glatist ekki sem og að sem minnst rót verði á þeirri rannsóknarstarfsemi sem færist undir hina nýju rannsóknarnefnd er í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins kveðið á um að forstöðumönnum núverandi rannsóknarnefnda verði boðið starf rannsóknarstjóra hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa og jafnframt skuli öðrum starfsmönnum nefndanna boðið starf hjá hinni nýju nefnd.“

Þetta er ákvæði til bráðabirgða og það er skýrt síðar hvað átt er við, út þennan skipunartíma og slíkt. Ég verð að segja, frú forseti, að í ljósi umræðna um þetta frumvarp og þessi mál veltir maður fyrir sér þeim orðum sem ráðherra hefur látið falla hér, m.a. í svari við fyrirspurn hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar. Getur verið að ráðherrann ætli að beita sér fyrir því að þau störf sem eru í rannsóknarnefnd sjóslysa í dag í Stykkishólmi verði lögð niður og flutt til Reykjavíkur? Það er athyglisverð stefna í ljósi umræðna flokks ráðherrans um störf án staðetningar og allt slíkt.

Ég ætla að vitna í umræðu og orð sem ráðherra lét falla á Alþingi við fyrirspurn hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, með leyfi forseta:

„Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þrátt fyrir áhuga minn á að flytja störf út á land verður líka að gæta þess að á bak við þau er fagfólk sem vinnur við þau. Við rífum það ekki upp með rótum og færum út á land.“

Það er líka fagfólk úti á landi og ef samgönguráðherra hefur áhuga á að styðja við landsbyggðina og fjölga störfum þar mundi hann sjálfur vitanlega íhuga það alvarlega að hrófla ekki við þessari góðu starfsemi sem mér vitanlega hefur ekki sýnt annað en góðan árangur í því starfi sem þar er unnið.

Frú forseti. Það má velta hér upp ýmsum hlutum. Ýmsar athugasemdir hafa birst í dagblöðum og annars staðar um þetta mál. Það er mjög mikilvægt að tryggja að nefndin sem fjalla mun um málið fari mjög vandlega yfir það og skoði alla kanta þess. Hv. þm. Jón Gunnarsson benti á áhugaverðan hlut hér áðan um rannsóknir björgunarslysa, ég held að það þurfi að skoða hann mjög vandlega. Ég vara hins vegar við þeim tóni sem mér hefur fundist vera í orðum ráðherra og ræðum hans um sameiningu þessara stofnana. Ég fæ ekki séð að það samræmist þeim yfirlýsingum og þeirri stefnu sem ráðherrann og flokkur hans hafa haft í gegnum tíðina um störf á landsbyggðinni, að í raun hóta því hér og segja í ræðu og svari við fyrirspurn að hann telji best að starfsemin sé á höfuðborgarsvæðinu þar sem hér séu flest umferðarlsysin eða hvernig þetta var orðað. Það hefur margsýnt sig að það er mjög hagkvæmt og gott að hafa opinber störf á landsbyggðinni. Bæði eru þau störf ekki síður unnin en á höfuðborgarsvæðinu og í öðru lagi er hægt að sýna fram á að þau störf hafi mjög mikil áhrif inn í þau samfélög þar sem þau eru unnin. Ábyrgð ráðherra er mikil í því að fara að rífa þetta fólk upp með rótum eins og annað fólk.

Að endingu, frú forseti, ítreka ég það sem kom fram áðan varðandi fyrirspurnir um formann nefndarinnar og aðrar spurningar sem ég hef lagt fram. Ég ítreka einnig að frumvarp þetta þarf að fá góða umfjöllun í nefndinni og ég ætlast til þess að nefndarmenn og nefndin kalli til þá aðila sem hafa skilað inn athugasemdum og aðra hagsmunaaðila og fái frá þeim raunsætt mat á frumvarpið í heild.