151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[15:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrsti minni hluti er ég og ég er fulltrúi Viðreisnar í nefndinni. Við gerum eina breytingartillögu. Við gerum úrslitatilraun til þess að ná fram lækkun á virðisaukaskatti til veitingarekstrar, að skatturinn verði lækkaður tímabundið í eitt ár, úr 11% í 6%, en eins og allir vita og ekki þarf að fjölyrða um hafa þær greinar sem tilheyra veitingageiranum orðið fyrir miklum búsifjum sem ekki sér fyrir endann á. Þetta er mjög nauðsynlegur þáttur í því að reyna af öllum mætti að greiða fyrir því að þessi fyrirtæki geti tekið við sér þegar þau geta farið að taka á móti ferðamönnum og öðrum gestum.