138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:02]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir framsögu hans. Ég hjó eftir því í upphafi máls hv. þingmanns að hann sagði að það væri ósannað að kolefni væru mengunarvaldandi. Ég get ekki alveg tekið undir þá röksemdafærslu. Ég vildi spyrja hann um tvö atriði: Telur hann að afnema eigi sjómannaafsláttinn í einu vetfangi? Er það skoðun Sjálfstæðisflokksins í heild? Af öðrum ræðum hér fyrr í dag hef ég ekki áttað mig á því hver afstaða flokksins er í heild. Á hann sér fylgismenn innan flokksins eður ei?

Ég mundi einnig vilja fræðast um afstöðu þingmannsins til auðlindagjalds. Nú erum við í frumvarpinu að opna á það að menn greiði fyrir auðlindirnar og við látum fólk borga fyrir heita vatnið og gufuna. En hver er afstaða þingmannsins gagnvart þeim auðlindum sem eru í sjónum?

Við getum verið sammála um að langt er seilst í tryggingagjaldinu en nú lögðu hagsmunasamtök atvinnurekenda ríka áherslu á að menn færu fremur í hækkun tryggingagjalds en að auka skattlagningu á t.d. auðlindir eins og hugmyndir voru uppi um.