140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á ýmsum greinum laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Það má flokka þær í tvo hópa, annars vegar að tryggja áframhaldandi stuðning við kvikmyndagerð hér á landi með því að framlengja í megindráttum núverandi kerfi endurgreiðslna vegna kvikmyndaframleiðslu og hins vegar að gera kerfið skilvirkara og jafna enn frekar samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum löndum.

Allir umsagnaraðilar fögnuðu framlagningu málsins og bentu á að það væri í raun lykillinn að því að erlend kvikmyndaverkefni kæmu áfram hingað. Bentu umsagnaraðilar á að öll erlend kvikmyndaverkefni væru fjármögnuð fyrir fram og að það fjármagn kæmi að utan. Þá töldu þeir víst að verkefni sem ekki rötuðu hingað yrðu að öðrum kosti framleidd annars staðar.

Kvikmyndagerð nýtur tvenns konar ríkisstyrkja, virðulegi forseti, annars vegar á grundvelli kvikmyndalaga í gegnum Kvikmyndamiðstöð Íslands og hins vegar á grundvelli þeirra laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar sem hér eru til umræðu. Það sem skilur að fyrrgreind lög má eiginlega segja að sé að Kvikmyndamiðstöðinni er í gegnum kvikmyndalög ætlað að styðja sérstaklega við framleiðslu, dreifingu, kynningu, útbreiðslu og sölu íslenskra kvikmynda en þessum endurgreiðslulögum er ætlað að styðja við bakið á rekstrarþætti atvinnugreinarinnar og þannig stuðla að eflingu sömu menningar. Þannig styrkir Kvikmyndamiðstöðin aðeins innlenda kvikmyndagerð en endurgreiðslulögum er ætlað að styðja við alla þá kvikmyndagerð sem skapar veltu í íslenska hagkerfinu, bæði þau verkefni sem koma utan frá og eins þau verkefni sem stofnað er til hér á landi. Ekki er heimilt lögum samkvæmt að skilja þar á milli. Með því að styðja við kvikmyndagerð á tvennan máta er það markmið löggjafans að leggja rækt við báðar hliðar kvikmyndaiðnaðarins, bæði sköpun og rekstur.

Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kom fram gagnrýni á að á árinu 2011 hefði iðnaðarráðuneytið endurgreitt í gegnum þessi lög framleiðslukostnað kvikmynda umfram samþykktar heimildir í fjárlögum ársins. Ráðuneytið vakti athygli á því á fundum nefndarinnar að veruleg aukning í skuldbindingum milli ára væri meðal annars til komin vegna snjóhengju, þ.e. fjölmargra innlendra verkefna sem hefði verið lagt í á undangengnum árum en hefðu klárast á árinu 2011, þau hefðu tafist í fjármögnun og þess vegna hefði komið til útborgunar núna í ár. Aukinheldur hefði verið um að ræða nokkuð stór erlend verkefni á þessu ári og þar af leiðandi væru útgjöldin í gegnum endurgreiðslukerfið meiri en gert var ráð fyrir.

Hins vegar er ljóst, og það er skoðun meiri hluta nefndarinnar, að ef halda á áfram að endurgreiða hlutfall af kostnaði í kvikmyndagerð eftir því kerfi sem lögin mæla fyrir um þarf ríkissjóður að vera reiðubúinn að standa við þær skuldbindingar sem gefnar eru á grundvelli laga þessara. Í því tilliti þarf að líta til þess að þegar skuldbindingarnar sem byggðar eru á lögunum koma til greiðslu er fjármögnun og framleiðslu kvikmyndaverkefnanna að fullu lokið og efnahagsleg áhrif þeirra í atvinnulífi að fullu komin fram. Þar af leiðandi hefur ríkið þá þegar innheimt tekjur af þessum verkefnum í gegnum skatta og skyldur. Þannig verður að mati nefndarinnar ekki betur séð en að það hafi í för með sér aukna veltu sem á að hafa skilað ríkinu auknum tekjum áður en til útgreiðslu kemur. Þannig hafi ríkið tekið tekjur inn af verkefnunum áður en það greiðir út þeim til styrktar.

Á fundi nefndarinnar var tekið dæmi af erlendu kvikmyndaverkefni á þessu ári en skuldbinding vegna kvikmyndarinnar sem tekin var upp var 100 millj. kr. Starfsmenn innlends framleiðslufélags sem stofnað var vegna verkefnisins voru um 230 meðan á tökum stóð. Hingað komu aukinheldur starfsmenn á launum hjá hinum erlenda framleiðanda kvikmyndarinnar og þeir voru 250. Skattar og gjöld sem runnu í ríkissjóð í tengslum við verkefnið námu gróflega áætlað 150 millj. kr. Vilyrði fyrir útborgun var gefið eftir að fjárlög fyrir 2011 höfðu verið samþykkt og þegar greiðsluskuldbinding ríkissjóð varð virk höfðu þar með tekjur af verkefninu runnið inn í ríkissjóð. Ef þetta verkefni er sérstaklega skoðað má sjá að ríkið var þá þegar búið að fá um 150 milljónir í tekjur þegar kom að endurgreiðslu upp á 100 millj. kr.

Nefndin gerir eina breytingartillögu á frumvarpi ráðherra. Forsaga þess máls er sú að meðal skilyrða þess að framleiðslukostnaður við kvikmyndagerð hér á landi sé endurgreiddur er að framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis sé lokið og að ekki séu fyrir hendi vangreiddir skattar og gjöld til ríkis og sveitarfélaga hér á landi vegna framleiðslunnar. Á fundum nefndarinnar var vakin sérstök athygli á öðru skilyrði um endurgreiðslur, því skilyrði c-liðar 4. gr. laganna að stofnað sé sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi. Fram kom það sjónarmið að eðlilegt væri að reyna að tryggja að þau félög sem stofnað væri til stæðu við skuldbindingar sínar við einkaaðila ekki síður en við opinbera aðila áður en til endurgreiðslu kæmi.

Í ljósi framangreinds gerir meiri hluti atvinnuveganefndar eina tillögu til breytingar á frumvarpinu, þ.e. að við 1. mgr. 4. gr. bætist skilyrði sem felur í sér að við mat á því hvort um endurgreiðslu skuli vera að ræða, þ.e. það hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar og sjónvarpsefnis, skuli líta til þess hvort allar kröfur sem stofnast hafa hér á landi vegna framleiðslunnar hafi verið greiddar. Undir þetta nefndarálit ritar meiri hluti nefndarinnar, Kristján Möller formaður, Magnús Orri Schram framsögumaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Árni Þór Sigurðsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þór Saari.