151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

svör við fyrirspurnum.

[15:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég er hér í svipuðum erindagjörðum og hv. síðasti ræðumaður. Það var fyrir nokkru að það komu svör frá hæstv. fjármálaráðherra vegna þriggja fyrirspurna sem snúa að fjölda íbúða sem hafa verið teknar yfir af tveimur bönkum í eigu ríkisins á tilteknu tímabili og félögum í eigu þessara banka. Með vísan til 57. gr. þingskapalaga virtist ekki vera hægt að svara þessu. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. forseti hefur ekkert boðvald yfir ráðherra sem auðvitað ber pólitíska ábyrgð á svörum sínum og það allt saman. En ég leyfi mér kannski að beina því til forseta hvort hann hafi í huga eða hafi jafnvel nú þegar kannað hvort fordæmi séu um það að fyrirspurnum af svipuðum toga hafi verið svarað.