151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

svör við fyrirspurnum.

[15:06]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Eins og forseti upplýsti þá hugðist hann og hyggst láta skoða þetta mál og það er farið af stað að skoða þetta mál. En það er ekki alveg einfalt úrlausnar þegar sú staða kemur upp að ráðherra ber fyrir sig í svörum sínum að honum sé ómögulegt að svara eða hafi ekki stöðu til að svara á þann hátt sem fyrirspyrjendur beiðast. Þá þarf að skoða ýmis jaðartilvik í því, þar á meðal fordæmi og svo þá málsvörn sem er flutt fram fyrir því að fyrirspurnin sé ekki svaranleg. Það snýr líka að Alþingi sjálfu og þar á meðal ábyrgð forsetans sem skrifar upp á fyrirspurnir. Það má líta á það sem vissa gagnrýni á að þarna hafi forseti skrifað upp á fyrirspurn sem ómögulegt var að svara. Sú skoðun er því líka í gangi og kann að kalla á það að í vissum tilvikum geti forseti gefið sér betra ráðrúm til að leggja mat á fyrirspurnir áður en þær eru sendar. Auðvitað er það ekki til sóma fyrir Alþingi ef það væri hin rétta niðurstaða að héðan bærust fyrirspurnir sem ekki væri hægt að svara. Forseti getur því miður ekki sagt meira um það á þessu stigi en málið er í skoðun.