143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er rétt að það skiptir ekki öllu máli hvað hlutirnir heita. Við þurfum hins vegar að hafa þá framtíðarsýn sem hv. þingmaður talaði um og vera klár á því hvaða málaflokka við leggjum áherslu á og hvernig við getum bætt úr og hvar þarf að bæta úr og slíkt. Framtíðarsýnin byggist á því að sjálfsögðu að hafa fjármuni til þess.

Við sem störfum á þessum vettvangi höfum væntanlega öll okkar framtíðarsýn. Hún er hins vegar kannski ekki alltaf sú sama eins og kom fram í umræðum í dag, hvort það eru vetrarbrautir eða svarthol eða hvað það er sem við stefnum að. Framtíðarsýnin sem við erum að boða verður að byggja á einhverjum grunni. Það er sá grunnur sem ég tel að hv. þingmaður sé að vísa hér til, að við verðum að eiga fyrir því sem við ætlum að framkvæma og eiga fyrir því sem við ætlum að reka. Sumt er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt. Við þurfum að standa í framkvæmdum sem tryggja samgöngur, heilbrigðiskerfi, löggæslu og ýmislegt þess háttar. Við þurfum líka að hafa þá framtíðarsýn að búa til tekjur fyrir önnur verkefni. Það er ætlunin með þessu fjárlagafrumvarpi, að reyna að koma ríkissjóði á núllið og byrja að skila krónum í kassann þannig að hægt sé að fara að byggja upp, hægt sé að nota peningana í þörf verkefni sem bíða og eru brýn og greiða niður skuldir.