144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:37]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu sína. Mig langar til þess að spyrja hana aðeins út í áhrif þessa frumvarps á hóp sem er einn fátækasti hópur á Íslandi í dag en hefur jafnframt ekki mikið verið í umræðunni og það er hópur sem við getum kallað umgengnisforeldra. Það eru foreldrar sem eiga börn og hugsa um börn, sjá fyrir börnum en njóta til að mynda ekki barnabóta og kallast í rauninni ekki foreldrar í kerfinu og njóta þess vegna engra kjarabóta.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa smábút úr þskj. 1, bls. 70, sem ber yfirskriftina Mótvægisaðgerð. Þar segir:

„Til að vega á móti áhrifum breytinga á neðra þrepi virðisaukaskatts á verðlag og framfærslukostnað er miðað við að á árinu 2015 verði beitt mótvægisaðgerð í gegnum tekjuskatt einstaklinga sem kosta muni ríkissjóð 1 milljarð kr.“

Þarna er væntanlega verið að tala um áætlaða hækkun barnabóta.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um að þetta sé ekki ákjósanlegur staður til þess að mæta þörfum lægstu tekjuþrepa eða hópa, virðisaukaskattsleiðin, heldur sé það frekar gert í gegnum svona bætur. Nú njóta umgengnisforeldrar ekki barnabóta, matarkarfan þeirra mun hækka jafnmikið og annarra foreldra. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi eitthvað verið til umræðu, hvaða mótvægisáhrifum eða aðgerðum þessi hópur má eiga von á, vegna þess að hann er nú þegar einn fátækasti hópur landsins. Mig langar að vita það.

Ef ég hef tíma langar mig aðeins að spá í hvort það sé rétt skilið hjá mér að þessar vaxtabætur lækki einnig um rúman milljarð frá fjárlögum 2014. Mér finnst ekkert vera búið að ræða það. Ég er næstum því farin að halda ég misskilji eitthvað. Mig langar að ræða vaxtabæturnar vegna þess að ég sé í fljótu bragði ekki neinar hækkanir á húsaleigubótum eða aðgerðir til þess.

Fyrst og fremst langar mig að heyra hvaða sýn hæstv. ráðherra hefur á áhrif frumvarpsins á umgengnisforeldra.