143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held enn þá að það hafi verið skynsamlegt að hætta við virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Ég held að ekki hefði verið rétt að fara þá leið, en eins og kom fram í máli mínu er að sjálfsögðu verið að skoða hvernig við getum náð þá gjaldi af ferðamönnum með einhvers konar já, gjaldtöku, hvernig því er best fyrir komið. Það er bara ekkert óeðlilegt við að það sé endurskoðað, að menn velti því fyrir sér hvaða leið er best að fara. Eins og ég nefndi áðan er nefnd á vegum atvinnuvega- og umhverfisráðuneytanna að vinna að þessu og skoða þetta mál og ég vona að sjálfsögðu að sú tillaga komi fram sem allra fyrst.

Ég ætla ekki að segja hér að til verði fjármunir í þessi verkefni 2015, 2016 eða 2017 eða hvernig það er. Það er einfaldlega þannig að þessu varð að fresta, við frestuðum þessu. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að það er veruleg fjármagnsþörf hvað þessi verkefni varðar. Of margir staðir þola ekki meiri ágang eða áníðslu eða hvað við köllum það, þannig að það er mjög brýnt að leysa þetta mál. Ég ætla ekki heldur að segja það hér við hv. þingmann að allt það fé sem þarna kann að innheimtast fari í eitthvert ákveðið verkefni. Í dag er gert ráð fyrir um 190 milljónum af gistináttagjaldinu og að af þeirri upphæð fari um 60% í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ég kann ekki að segja hvort það er skipting sem á við um þetta eða að 40% fari til friðlýstra svæða. Skiptingin þarna er væntanlega ekki alveg heilög, ef ég leyfi mér að orða það þannig.

Ég segi því enn og aftur: Að sjálfsögðu er það vont að hafa ekki allt það fjármagn í heiminum sem við viljum hafa til þess að fara í öll þessi brýnu verkefni.