145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:28]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðurnar og svörin. Þetta er gríðarlega mikilvægt ráðuneyti, margir stórir málaflokkar undir. Hér hefur til dæmis samgönguáætlun verið rædd og útlendingamálin, ég ætla ekki að eyða tíma í það en ítreka mikilvægi þess að við stöndum okkur í þessum málaflokkum.

Mig langar að tala aðeins um málskostnað í opinberum málum sem er liður sem fer ítrekað fram úr fjárheimildum. Ég sit í fjárlaganefnd sem hefur aðhaldshlutverk og ég hef stundum verið að spyrjast fyrir um það hjá ráðuneytinu. Það er eins og það hafi verið erfitt að ná utan um þetta og þess vegna finnst mér gott að sjá á bls. 344 að Ríkisendurskoðun sé með fjárlagaliðinn til skoðunar og niðurstaða muni liggja fyrir varðandi útgjaldaþróunina en það er ótækt að ekki sé hægt að áætla á þennan lið.

Síðan langaði mig aðeins að tala um neytendamálin. Nú hef ég miklar mætur á hæstv. ráðherra og trúi því að þegar hún segist ætla að fara í málin þá geri hún það raunverulega og ég trúi því þess vegna að útlendingamálin séu í góðum höndum hjá henni, en varðandi neytendamálin varð ég fyrir vonbrigðum að sjá að það er lækkun til Neytendasamtakanna og í raun líka til Neytendastofu. Við erum að fara í verðbreytingar um áramótin, mikilvægar breytingar, afnám tolla og annað þar sem ég mundi halda að það þyrfti að hafa eftirlit og þar fyrir utan er þessi málaflokkur afgangsmálaflokkur á Íslandi. Við berum okkur saman við önnur lönd og sérstaklega Norðurlöndin þar sem neytendur eru meðvitaðir og þar fram eftir götunum en það gerist ekki upp úr þurru heldur vegna þess að þessi málaflokkur hefur verið settur þar á dagskrá og menn hafi sett fjármagn í hann. Ég sakna þess að það skuli ekki vera gert hér á Íslandi. Þar er sett fjármagn í frjálsu félagasamtökin, sem geta verið varðhundar sem geta tekið harðar til orða en opinberu eftirlitsstofnanirnar, sem eru í okkar tilfelli Neytendastofa. Að vísu eru fjárframlög hækkuð til Samkeppniseftirlitsins. Ég er ánægð með það. Það heyrir ekki undir þetta ráðuneyti, neytendamál eru auðvitað víða, en ég verð að lýsa yfir vonbrigðum með þetta.

Ég er ánægð með að sjá að það er verið að gera úttekt Ríkisendurskoðunar á málskostnaði í opinberum málum en ég er ekki hress með neytendamálin og mundi vilja fá svar ráðherra hvort henni finnist þetta ásættanlegt.