149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir með hv. þingmanni, verkefnið Ísland ljóstengt er sennilega okkar albesta byggðaverkefni. Þegar við ræðum það á erlendum vettvangi finnst mönnum líka mikið til þess koma. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að þrátt fyrir að markaðsfyrirtækin hafi átt að sjá um þéttbýliskjarnana og hafa í mörgum tilvikum gert það getur verið að það sé ekki hægt alls staðar.

Tæknin hefur verið þannig að það er hægt að vera með örbylgjusenda og líka hægt að magna upp í gamla þráðakerfinu. Mér finnst góð hugmynd að velta fyrir sér hvort við þyrftum að skoða það hvort einhverjir staðir munu verða út undan þegar fer að nálgast lokin á verkefninu og að markaðsfyrirtækin hafi ekki tekið á hinum þáttunum en auðvitað hefur verkefnið falist í því að 99,9% heimila og fyrirtækja verði tengd beint með þræði.

Mig langaði aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður spurði um í fyrra svarinu, um framlög til flugvalla og hvernig við svörum því á næsta ári. Þá er það þannig að framlag til flugvalla hækkar um 336 milljónir á milli ára sem bætast við um 370 millj. kr. hækkun frá fjárlögum 2017 og stefnir þá í að verða sirka 2,5 milljarðar en var innan við 2 milljarðar fyrir tveimur árum. Menn hafa viðurkennt að þessi vandi er fyrir hendi og að við þurfum að gera betur.

Varðandi þann merka viðburð að flug eigi 100 ára afmæli á næsta ári má geta þess hér þó að það tengist ekki beint fjárlögum að við höfum sett af stað vinnu við flugstefnu — kannski ekki seinna vænna eftir 100 ár — og það væri auðvitað frábært ef við gætum lanserað því á 100 ára afmæli flugs en jafnframt kannski að gera eitthvað meira úr því og vonandi að svara allflestum spurningum sem við höfum verið með á lofti í nokkra mánuði er varða stuðninginn við innanlandsflugið einnig.