154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

framsal íslenskra ríkisborgara.

[15:25]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í mál íslenskrar konu sem var handtekin í gær vegna beiðni norskra yfirvalda. Hvernig má það vera að íslensk stjórnvöld ákveði að framselja íslenskan ríkisborgara úr landi og út í algera tímabundna óvissu í Noregi þar sem dómsmál viðkomandi er ekki einu sinni komið á dagskrá? Markmið framsalsbeiðninnar er það eitt að tryggja að konan mæti fyrir dóm á tilteknum degi sem hefur eru ekki einu sinni verið ákveðinn. Konan hefur lýst því yfir að hún hugðist mæta í dómsal þegar þar að kæmi hvort sem er. Nú á þessari stundu þarf hún að dúsa í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði. Það getur vel verið að konan þurfi að dvelja í gæsluvarðhaldi í Noregi fram eftir næsta ári vegna þess að dómstólar eru ekki alltaf fljótir að setja mál á dagskrá. Ofan á allt eru að koma jól. Hvers vegna beita stjórnvöld ekki meðalhófi við framsal eigin þegna? Það þarf að tryggja að ekki sé farið í leit að fólki og handtöku þegar ekki liggur fyrir hvenær dómsmálið er á dagskrá í Noregi. Hvers vegna er auglýst eftir móður með nafni og mynd ólíkt því sem gengur og gerist þegar lögreglan auglýsir eftir þeim sem brjóta hegningarlög? Hverra hagsmuna er verið að gæta með þessu offorsi? Hvaða lög er verið að brjóta með því að hýsa drengina í sínu heimalandi?