153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

fjárframlög til Sjúkratrygginga Íslands.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Líkt og ég sagði hér áðan þá virðum við þær ákvarðanir sem einstaklingar taka. Þær eru aldrei einhlítar. Þarna er ein mikilvæg ástæða, sem er okkar sameiginlega verkefni að tryggja að stofnunin standi undir því mikilvæga og stóra hlutverki sem henni er ætlað.

Af því að hv. þingmaður kemur inn á samninga við sérgreinalækna, þá er það heldur ekki einhlítt. Það er ekki þannig að vöntun fjármuna sé eina ástæða þess að ekki sé hægt að semja og það veit hv. þingmaður jafn vel og ég. Ég bind miklar vonir við það samtal sem er í gangi og er búið að vera í gangi núna undanfarnar vikur. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt fyrir alla aðila að ná samningum. Það hefur verið samningslaust í fjögur ár og nú hefur gliðnað of mikið á milli raunkostnaðar og gjaldskrár. Það er verkefni sem við erum að vinna að því að bæta og ná saman um. Ég bind miklar vonir við að það takist.