Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:52]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir andsvarið. Ég verð að segja að það er eiginlega algerlega með ólíkindum að hlusta á málflutning hv. þingmanns. Hér er einfaldlega verið að framlengja bráðabirgðaákvæði sem snýst um það að halda áfram að innleiða og þróa NPA-þjónustu á Íslandi vegna þess að enn þá er fjöldi álitamála fyrir hendi, eins og klárlega kemur fram í skýrslu þess starfshóps sem ég vitnaði til í framsöguræðu minni. Það er ástæðan fyrir því að við erum að framlengja þetta.

Önnur ástæða fyrir því að við erum að framlengja þetta er, og það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að það hefur ekki náðst að klára að semja um eða koma á fleiri en 90–95 samningum. Þess vegna eigum við eftir að klára upp í 172 eins og bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir að hefðu átt að klárast á þessu ári. En fjármagnið, hæstv. forseti, sem hefur komið akkúrat inn í NPA-þjónustuna er samt meira en það sem gert var ráð fyrir að kæmi inn þegar frumvarpið var lagt fram og samþykkt á Alþingi. Því er ekki eins og ríkisstjórnin hafi ekki verið að leggja til fjármagn í þennan málaflokk og akkúrat inn í þessa þjónustu. Einmitt hið öfuga — ríkisstjórnin hefur verið að leggja til fjármagn til að koma á samningum og ríkisstjórnin er að leggja til aukið fjármagn á næsta ári til að koma fyrir helmingi fleiri samningum en eru akkúrat núna á þessu ári, bæta við um 50 samningum miðað við þær forsendur sem gefnar eru í frumvarpinu sem unnar eru út frá meðalkostnaði við hvern samning, sem er auðvitað besta leiðin sem við höfum til að reyna að meta kostnaðinn við hvern samning þó svo að það kunni vel að vera að einhverjir þeirra séu dýrari og aðrir ódýrari.