Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Sú spurning hefur hvílt á mér frá því að við settumst á þing og þessi ríkisstjórn var mynduð hvað það er sem ákveðnir flokkar, þar á meðal flokkur hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, fá í staðinn fyrir þær fórnir sem þeir færa í þessu stjórnarsamstarfi. Þær áhyggjur hafa hvílt á mér að það sem sá hluti ríkisstjórnarinnar fær, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, séu fyrst og fremst mál sem má kalla á góðri íslensku, og mér finnst þýðingin á þessu orði mjög skemmtileg, dyggðaskreytingu. Það eru frumvörp sem t.d. varða mikilvæg jafnréttismál, lög um bann við mismunun á grundvelli hinna og þessara mismununarþátta, svakalega fín lög sem eru í rauninni útvíkkun á lögum sem tóku gildi árið 2018 og hefur aldrei verið beitt. Ég hef talað um það áður í þessari pontu. Svo kemur þetta mál og það er ekki verið að fjármagna það sem skyldi. Það er eins og hv. þingmaður nefndi, því miður vakna hjá manni þær áhyggjur að það sé um einhvers konar orðagjálfur að ræða, það sem má kannski einmitt kalla dyggðaskreytingu. Ég vona að það verði ekki svoleiðis til lengdar. Ég vona að það sé ekki það eina sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð er að fá út úr þessu ríkisstjórnarsamstarfi í skiptum fyrir líf flóttafólks t.d., þar á meðal barna.