145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðu sína. Mig langar að spyrja hana aðeins nánar út í þau atriði sem hún fjallaði um varðandi byggðamálin.

Í 9. gr. frumvarpsins leggur meiri hlutinn til breytingu sem felur í sér að ráðherra skuli, þegar hann metur horfur til lengri tíma, einnig leggja mat á hvaða áhrif líklegt er að afkoma, fjárhagsstaða og skuldbindingar opinberra aðila hafa á þróun byggðar í landinu og einkanlega með tilliti til stöðu hinna dreifðari byggða.

Í 14. gr. er bætt við málsgrein sem hljóðar svo:

„Innan fjögurra vikna frá framlagningu frumvarps til fjárlaga skal Byggðastofnun gefa fjárlaganefnd Alþingis umsögn um áhrif frumvarpsins á byggðaþróun í landinu.“

Þarna finnst mér með tvennum hætti verið að reyna að tryggja að litið sé til byggðaþátta við framkvæmd opinberra fjármála, en auðvitað var þingmaðurinn líka að tala um þann stakk sem sveitarfélögunum er sniðinn. Það er mjög alvarlegt þegar sveitarfélög geta ekki farið í fjárfestingar og það á líka við um sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem geta ekki farið í innviðafjárfestingar, svo sem eins og í húsnæði, vegna skuldaþaksins.

Við í Samfylkingunni höfum velt því fyrir okkur hvort fjárfesting í húsnæði ætti til dæmis að vera undanþegin því og þá að því gefnu að lögð hafi verið fram góð greining á nauðsyninni fyrir húsnæðið. Er hv. þingmaður sammála því að það kynni að vera skynsamlegt?