Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:27]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar líka að koma aðeins inn á það að það eru fleiri hugmyndir í þeirri skýrslu sem var skilað í vor sem snúa að því að samræma þjónustu og viðmið sveitarfélaganna. Það er mjög eðlilegt að við framlengjum þetta bráðabirgðaákvæði til að takast á við innleiðinguna og klára hana og færa síðan verkefni til sveitarfélaganna að þessum tveimur árum liðnum, líkt og hv. þingmaður kom inn á í upphafi máls síns áðan, að það væri mikilvægt að við stæðum að því að leggja þetta frumvarp fram. Ég held að það sé bara mjög skynsamlegt að við bíðum eftir því að sjá hver niðurstaða þessa vinnuhóps um kostnaðarskiptinguna, sem er starfandi núna, verður áður en að við förum að mála skrattann á vegginn hér í öllum litum, án þess að ég sé að segja að hv. þingmaður hafi endilega verið að gera það hér, svo ég taki það nú skýrt fram.